• Norski fáninn

Aðferð Norðmanna yki fé um milljarða

15.12.2011

Íslendingar standa Norðmönnum langt að baki þegar kemur að fjármögnun rannsókna- og þróunarverkefna í sjávarútvegi. Væri aðferðafræði Norðmanna fylgt væri fé til rannsókna og þróunar um tveimur milljörðum krónum meira á ári.

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, varpaði fram þeirri spurningu á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva nýlega hvort líta bæri til Norðmanna varðandi rannsóknir og þróun, og hvort efla mætti íslenskan sjávarútveg með því að taka upp aðferðafræði þeirra við fjármögnun.
Sveinn segir að virðiskeðja sjávarútvegs, útvegur og vinnsla, standi undir sjóðum til sjávarútvegstengdra rannsókna og þróunar í Noregi, auk almennra rannsóknasjóða. Þannig leggja Norðmenn gjöld á útflutningsverðmæti sjávarafurða sem nemur 1,05 prósentum af heildinni og skilar 11,4 milljörðum íslenskra króna. Sambærileg gjaldtaka á Íslandi myndi skila 2,3 milljörðum, en útflutningsverðmæti sjávarafurða hér á landi var 220 milljarðar árið 2010.

Sveinn segir það ekki óeðlilegt í sínum huga, í ljósi mikilvægis sjávarútvegs á Íslandi, að greinin hefði sem öflugust tæki til þróunar. „Ísland stendur höllum fæti í samanburði við Norðmenn hvað þetta varðar, og reyndar á þetta við um fleiri lönd. Samanburðurinn er hins vegar mjög raunhæfur við Norðmenn, þar sem við erum utan við ESB og sjávarútvegur skiptir miklu máli í báðum löndum."

Árið 2010 hafði AVS, rannsóknasjóður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, úr 306 milljónum að moða, en sjóðurinn er fjármagnaður á fjárlögum hvers árs. Sveinn segir ofmælt að segja að útgerðin fjármagni sjóðina í Noregi en almannafé sé nýtt hér. Útgerð og vinnsla greiði sitt til samfélagsins sem nýtist í gegnum sjóðina.

Sjóði Norðmanna, FHF-sjóðnum, er stjórnað af mönnum sem sjávarútvegur og fiskeldi skipa til verksins, enda stofnaður að frumkvæði greinarinnar. Ráðherra skipar stjórn AVS og ber faglega ábyrgð hérlendis.

Norðmenn reka Útflutningsráð fyrir sjávarafurðir (Eksportudvalget), sem hefur starfsemi í tólf löndum. Hlutverkið er að greina stöðu norskra afurða á mörkuðum, safna upplýsingum um tækifæri og efla kynningu.

„Við höfum í raun ekkert sambærilegt. Eftir að sölusamtökin breyttu um hlutverk er enginn íslenskur aðili sambærilegur. Margir sterkir aðilar eru að markaðssetja fisk og sjávarafurðir en það er minni heildarsýn yfir markaðsmál greinarinnar hérlendis en í Noregi," segir Sveinn.

Nánari upplýsingar veitir Sveinn Margeirsson forstjóri Matís.


Frétt þessi birtist upphaflega í Fréttablaðinu 5. desember sl. (Tengiliður: Svavar Hávarðsson, svavar@frettabladid.is).


Fréttir