• Clean_ocean

Íslenskt sjávarfang er hreint og ómengað

18.2.2011

Skýrslur Matís undanfarinna ára um niðurstöður mælinga á magni eitraðra mengunarefna í íslenskum sjávarafurðum sýna svo ekki verður um að villst að okkar íslenska sjávarfang er langt undir viðmiðunarmörkum sem gilda um þessi efni.

Undanfarna daga hefur átt sér stað umræða um eiturefni í sjávarfangi þá sérstaklega í eldislaxi og var frétt á fréttaveitu RÚV um þetta efni nú fyrir stuttu (www.ruv.is/frett/mikid-um-eiturefni-i-eldislaxi)

Niðurstöður rannsókna sýna að ætilegur hluti fisks sem veiddur er á Íslandsmiðum inniheldur mjög lítið magn af lífrænum mengunarefnum eins og díoxíni, díoxínlíkum PCB efnum og varnarefnum (skordýraeitri og plöntueitri), samanborið við þau hámörk sem Evrópulöndin hafa viðurkennt. Olía og mjöl gert úr kolmunna á það þó til að vera nálægt eða yfirstíga leyfileg mörk fyrir viss efni.

Einnig hafa verið tekin sýni af íslenskum eldisfiski til greiningar á mengunarefnum (sjá skýrslu hér).  Matís hefur sömuleiðis um árabil fylgst með innihaldi mengunarefna í íslensku sjávarfangi og birtir árlega skýrslu um niðurstöður þeirrar vöktunar á heimasíðu sinni (nýjasta hér). Árið  2010 var jafnframt gefinn út bæklingur á ensku sem kallast „Valuable facts about Icelandic seafood“. Í honum er að finna samantekt vöktunargagna frá 2003-2008 um helstu mengunarefni sem fylgst er með og niðurstöður fyrir 10 tegundir sjávarfangs bornar saman við hámarksgildi Evrópusambandsins (ESB) fyrir þessi efni (þennan bækling má nálgast með því að senda póst á matis(at)matis.is).

Einnig má nefna að í Noregi er fylgst náið með þessum málum í sjávarfangi og eldisafurðum samanber eftirfarandi slóð: www.nifes.no/

Allar ofannefndar heimildir og upplýsingar benda til þess að innihald díoxína og PCB sé langt undir þeim mörkum sem gerðar eru til heilnæms sjávarfangs úr Atlantshafi eða úr eldi sem stundað er á Norðurlöndum.

Myndræna framsetningu niðurstaðna vöktunarverkefnisins er hægt að nálgast á heimasíðu Matís gegnum hlekkinn „Íslenskt sjávarfang – hreint og ómengað“.

Upplýsingar um skýrslur um þetta efni má finna á www.matis.is/utgafa/matis/skyrslur/, þá nýjustu hér.

Nánari upplýsingar veitir Hrönn Ólína Jörundsdóttir og Jón Árnason


Fréttir