Heilnæmi fisks: Seint verður góð vísa of oft kveðin

11.4.2002

Enn og aftur sýna rannsóknir hversu hollt það er að borða fisk. Í hinu virta tímariti New England Journal of Medicine, sem út kom í dag, er greint frá því að regluleg fiskneysla geti dregið úr líkum á dauða vegna hjartaáfalls um allt að 81%.

Í rannsókninni, sem hófst árið 1982, var fylgst með heilsufari 22 þúsund karllækna í Bandaríkjunum, sem ekki var vitað til að þjáðust af neinum hjartakvillum. Niðurstöðurnar þykja mikilvægar þar sem u.þ.b. helmingur þeirra sem deyja af völdum skyndilegs hjartaáfalls hafa ekki kennt sér meins áður.

Önnur viðamikil rannsókn, sem gerð var á vegum the Harvard School of Public Health og náði til meira en 80 þúsund hjúkrunarkvenna í Bandaríkjunum, sýnir einnig svo varla verður dregið í efa fram á heilnæmi fiskneyslu á heilsu fólks. Í rannsókninni er fullyrt að bein tengsl séu á milli neyslu á fiski og omega-3 fitusýru og áhættunar á að fá kransæðasjúkdóma eða skyndilegs dauða vegna hjartaáfalls.

Dr Christine Albert, sem stjórnaði rannsókninni sem birt er í NEJM segir að eftir því sem læknarnir, sem þátt tóku í rannsókninni, hafi mælst með meira magn fitusýru í blóðinu, þeim mun minni líkur voru á að þeir fengju hjartasjúkdóma. Sérstaklega voru líkurnar á að deyja skyndilega úr hjartaáfalli áberandi minni.


Fréttir