Markfæði hittir í mark í Bretlandi

8.4.2002

Vinsældir s.k. markfæðis hafa aukist verulega í Bretlandi, eins og víðar í iðnvæddum ríkjum, á síðustu árum. Sala á mat og drykkjum af þessu tagi jókst um 159% á árunum 1999-2001 í Bretlandi og talið er að enn séu verulegir möguleikar fyrir hendi til að auka söluna enn frekar.

Þetta kemur m.a. fram í nýlegri könnun sem breska markaðsrannsóknafyrirtækið Mintel gerði. Þar kemur einnig fram að það er einkum aukin vitund almennings um tengslin á milli hollrar fæðu og góðrar heilsu sem hefur haft áhrif á vinsældir markfæðis.

Markfæði er t.d. sú fæða kölluð sem ætlað er að hafa heilsubætandi áhrif sé hennar neytt í lengri tíma. Má t.d. nefna ýmis konar mjólkurvöru (jógúrt, LGG, ABT), ýmis konar morgunkorn, orkudrykki o.fl. sem dæmi um markfæði.

Í Bretlandi hefur verið rekinn mikill áróður fyrir því á síðustu árum að fólk axli sjálft meiri ábyrgð á eigin heilsu. Svo virðist sem áróðurinn hafi haft einhver áhrif, því færri Bretar fara nú í heilbrigðisskoðun nú en fyrir nokkrum árum. Hvort það er vísbending um bætt heilsufar eða aukið skeytingarleysi skal hins vegar ósagt látið.

Vinsælasta tegund markfæðis í Bretlandi er ýmis konar morgunkorn. Þar á eftir koma viðbit og orkudrykkir og má í því sambandi nefna að um 70% af s.k. orkudrykkjum á markaði í Bretlandi teljast vera markfæði.


Fréttir