• Eurofir_logo

Lokið við að samræma gagnagrunna um efnainnihald matvæla í 25 Evrópulöndum

24.9.2010

Matís hefur tekið þátt í evrópska öndvegisverkefninu EuroFIR (e. European Food Information Resource) um efnainnihald matvæla en verkefninu lauk nú í sumar.

Það stóð í fimm ár og var fjármagnað af 6. rammaáætlun Evrópusambandsins og þátttakendum. Að verkefninu stóðu 49 fyrirtæki, háskólar og stofnanir frá 27 Evrópulöndum og var stjórnun verkefnisins hjá Institute of Food Research í Norwich í Bretlandi.

Meginmarkmið verkefnisins var að samræma og staðla vinnu við evrópska gagnagrunna um efnainnihald matvæla. Margvísleg verkfæri voru þróuð til þess að ná þessu markmiði. Nefna má staðal um framsetningu gagna, gæðamatskerfi fyrir gögn um efnainnihald matvæla, LanguaL-kerfið til að skilgreina fæðutegundir og kóðunarkerfi til að lýsa gögnunum.

Meðal viðfangsefna í verkefninu var birting gagna um efnainnihald matvæla á vefsíðum þátttakenda. Matís var meðal hinna fyrstu sem birti gögnin en það var gert árið 2007. Frá þeim tíma hefur verið hægt að leita í hluta ÍSGEM-grunnsins á www.matis.is undir Fræðsluvefir – Næringargildi matvæla. Í verkefninu voru þróuð vefforrit (vefþjónustur) til að leita að skilgreindum gögnum í hinum ýmsu gagnagrunnum. Ef okkur t.d. vantaði gildi fyrir B2-vítamín í sölvum var hægt að leita hjá hinum þátttakendunum og fá gildi ásamt margvíslegum kóðuðum upplýsingum.

Í verkefninu tókst að samræma gagnagrunna um efnainnihald matvæla í 25 Evrópulöndum og er íslenski gagnagrunnurinn (ÍSGEM) þar á meðal en Matís sér um rekstur hans. Nýtt skráningarkerfi var tekið í notkun fyrir ÍSGEM-gagnagrunninn árið 2009 og var það hannað í samræmi við nýjar kröfur EuroFIR verkefnisins. Samræming gagnagrunna auðveldar mikið flutning gagna milli landa. Fjöldi vörumerkja fyrir matvæli á Vesturlöndum skiptir nú tugum þúsunda og stöðugt bætast við nýjar vörur. Of kostnaðarsamt er að efnagreina allar þessar vörur og því er mikilvægt að geta fengið skilgreind gögn frá öðrum löndum.

Í verkefninu var byggður upp sérhæfður gagnagrunnur um lífvirk efni í plöntum. Gæði gagnanna voru metin og skráðar upplýsingar um styrk efnanna og lífvirkni þeirra. Hefðbundin matvæli voru til skoðunar í sérstökum verkhluta. Framleiðsla þeirra var skrásett og valin matvæli voru síðan efnagreind. Íslensku matvælin voru skyr, hangikjöt, súrsaður blóðmör, kæstur hákarl og harðfiskur.

Gagnagrunnar um efnainnihald matvæla eru í stöðugri þróun vegna nýrra þarfa heilbrigðisgeirans, atvinnulífs og almennings. Gagnagrunnana þarf stöðugt að uppfæra enda breytist efnasamsetning matvæla m.a. með breyttum uppskriftum og umhverfisþáttum.

Til að umgjörðin um samræmda evrópska gagnagrunna gæti haldið áfram að þróast var stofnað alþjóðlegt félag með aðsetur í Belgíu (EuroFIR-AISBL). Hlutverk félagsins er að miðla sérfræðiþekkingu og starfrækja upplýsinganet fyrir þátttakendur í félaginu. Félagið hefur m.a. tekið við rekstri gagnagrunns fyrir lífvirk efni og rekstri vefleita fyrir evrópsku gagnagrunnana. Nánari upplýsingar um EuroFIR verkefnið eru á www.eurofir.eu og hjá Ólafi Reykdal starfsmanni Matís.


Fréttir