Noregur:Stefnt að því að verðmæti sjávarafurða verði álíka og af olíunni

14.3.2002

Svein Ludvigsen, sjávarútvegsráðherra Noregs, segir að hægt sé að auka útflutningsverðmæti norskra sjávarafurða úr um 30 milljörðum norskra króna í dag í um 200 milljarða á næstu 20-30 árum. Það er álíka mikið og Normenn reikna með að fá fyrir norska olíu og gas á þessu ári.

Ludviksen sagði þetta í tilefni þess að í dag verður kynnt í norska Stórþinginu áætlun um "Hreint og auðugt haf," sem forsætis-, umhverfis og sjávarútvegsráðherrar Noregs standa sameiginlega að. Í þessu sambandi verður einnig greint frá fyrirhugaðri stækkun norskrar lögsögu úr 4 í 12 sjómílur.

Ludviksen segir að forsenda þess að sjávarútvegurinn geti orðið nýtt "olíuævintýri" í Noregi á næstu árum, sé m.a. sú að ímynd norskra sjávarafurða verði tengd hreinu umhverfi og heilnæmi.

Norski sjávarútvegsráðherrann bendir ennfremur á að magnið skipti ekki öllu máli heldur hvernig hráefnið sé nýtt. Hann bendir í því sambandi t.d. á að gelatín, unnið úr þorskroði, sé nú notað í farsíma og að í Tromsø séu unnin efni úr rækjuskel (væntanlega kítín og litarefni, (innsk. Rf)), fyrir um 350 milljónir norskra króna á ári.

Hér á landi starfar vinnuhópur á vegum sjávarútvegsráðuneytisins, AVS-hópurinn s.k. (aukið verðmæti sjávarafurða),sem hefur verið falið það hlutverk að leggja fram tillögur um leiðir til aukinnar verðmætasköpunar í sjávarútvegi hér á landi.


Fréttir