MARITECH færir út kvíarnar

8.3.2002

Maritech International og Surefish Inc. hafa gert samning um yfirtöku Surefish á WiseFresh (áður QimIT) hugbúnaðinum frá Maritech sem mun hér eftir heita SureFresh. Rf átti stóran þátt í þeirri vinnu sem hugbúnaðurinn byggir á.

Greint er frá samningi Maritech International og Surefish Inc. á heimasíðu Tölvumynda hf., en það fyrirtæki á tæplega helmingshlut í Maritech.

Hugbúnaðurinn, sem nú nefnist SureFresh, byggir á gæðastuðulsaðferðinni Quality Index Method eða QIM og nefndist verkefnið, sem hugbúnaðurinn byggir á, Tölvuvætt skynmat í fiskvinnslu, á ensku QimIT, sem er stytting á Quality Index Method og Information Technology.

Rf hefur margra ára reynslu af að þróa skynmatsaðferðir til að meta ferskleika fisks og má geta þess að árið 1995 gaf stofnunin út handbók um þetta efni. Á síðasta ári kom út skynmatshandbók á ensku, Sensory Evaluation of Fish Freshness, sem byggir á niðurstöðum úr QimIT verkefninu. Þar er fjallað um skynmat á 12 algengum fisktegundum.


Fréttir