• iStock_fishfarm

Uppbygging á hlývatnseldi á Flúðum

28.5.2010

Hrunamannahreppur, Íslensk matorka ehf. og Matís ohf. undirrituðu í gær, fimmtudaginn 27. maí,  viljayfirlýsingu um uppbyggingu á orkufrekum matvælaiðnaði á Flúðum sem m.a. felur í sér hlývatnseldi á hvítum matfiski.

Uppbyggingin verður unnin í samstarfi við Orkustofnun þar sem stofnunin verður leiðbeinandi og ráðgefandi.

Nýting á jarðhita og raforku skipta miklu fyrir atvinnulíf í Hrunamannahreppi. Hlývatnseldi byggir á nýtingu á volgu vatni og raforku auk þess sem sérlega er hugað að sjálfbærni og vistvænum framleiðsluaðferðum. Slík uppbygging í orkufrekum matvælaiðnaði fellur vel að nýtingaráformum á orku- og jarðhita, öðrum matvælaiðnaði og matvælatengdri ferðamannaþjónustu í sveitarfélaginu.

Gert er ráð fyrir að á annan tug nýrra starfa skapist við sjálft hlývatnseldið, auk þess sem fjöldi afleiddra starfa munu fylgja í kjölfarið.

Íslensk matorka ehf sérhæfir sig í orkufrekum matvælaiðnaði til útflutnings. Markmið fyrirtækisins er að nýta íslenska orku á umhverfisvænan og sjálfbæran hátt, skapa grunn að nýjum útflutnings- og atvinnutækifærum og efla nýsköpun og þróun.

 Undirskrift_hlyvatnseldi
Stefanía Katrín Karlsdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitastjóri Hrunamannahrepps,
Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir frá Orkustofnun, Ragnar Magnússon, oddviti
hreppsnefndar Hrunamannahrepps og Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís.

Nánari upplýsingar veitir Stefanía Katrín Karlsdóttir, stefaniakk@simnet.is, og í síma 862-6519.


Fréttir