• Logo Matís

Matís á vorráðstefnu FÍF

17.4.2010

Líflegar umræður voru á vorráðstefnu Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda sem haldin var 8.-9. apríl síðastliðinn á Grand-hóteli. Matís lét ekki sitt eftir liggja og var með tvo fyrirlestra á sínum snærum þar.

Í fyrirlestri sínum fjallaði Lárus Þorvaldsson um kælingu uppsjávarafla til vinnslu í landi. Þar fór hann yfir þann árangur sem náðst hefur með sívirkum hitastigsmælingum og eftirfylgni um borð í uppsjávarskipum Síldarvinnslunnar en auk þess kynnti hann möguleika tölvuvæddrar varma- og straumfræði til hönnunar, vinnslustýringar og ákvarðanatöku við uppsjávarveiðar.

Þá fjallaði Sigurjón Arason um rannsóknir Matís á árstíðarbundnum sveiflum í fitu- og þurrefnisinnihaldi uppsjávarfisks, ásamt því sem hann kom inn á markaðsaðstæður og möguleika til nýtingar ýmissa uppsjávartegunda.  Sigurjón fjallaði einnig um starf Matís við smíði gæðavísis uppsjávarfisks,  en Matís hefur á síðustu misserum þróað skynmatsaðferðir til að leggja mat á ferskleika uppsjávartegunda.

Báðir fyrirlestrarnir vöktu mikinn áhuga meðal ráðstefnugesta og ljóst að grannt er fylgst með rannsóknum Matís til hagsbóta fyrir íslenskan sjávarútveg.


Fréttir