• Logo_Benefit_Risk

Áhætta og ávinningur við neyslu matvæla og miðlun upplýsinga til neytenda

13.4.2010

Dagana 14.-15. apríl verður haldinn alþjóðlegur vinnufundur (Workshop) um „Aðferðir  til að greina áhættu og ávinning vegna neyslu matvæla og miðlun upplýsinga til neytenda„ í nýju höfuðstöðvum Matís .

Þessi vinnufundur er liður í SAFEFOODERA EraNet verkefni um áhættu- og ávinningsmat.  Samtals er gert ráð fyrir að 23 sérfræðingar frá 8 löndum taki þátt í fundinum.

Markmið verkefnisins er  að þróa aðferðir  til að greina áhættu og ávinning vegna neyslu matvæla og miðlun upplýsinga til neytenda. Til þess að ná þessu markmiði er ætlunin að nýta þekkingu og reynslu á áhættu-og ávinningsgreiningu sem byggð hefur verið upp á öðrum fræðasviðum s.s. læknis- og lyfjafræði, örverufræði, umhverfisfræðum, félags- og hagfræði og  yfirfæra sem og aðlaga þær aðferðir að matvæla- og næringarfræði. Ætlunin er að safna gögnum og nýta sér reynslu sem byggð hefur verið upp á þeim fræðasviðum sem nota áhættu-og ávinningsgreiningu í dag og yfirfæra þessa þekkingu og þróa aðferðir sem henta á sviði matvæla. 

Hlutverk Matís er að safna gögnum og nýta sér þá reynslu sem byggð hefur verið upp á sviði örverufræði um áhættumat og yfirfæra þessa þekkingu til að þróa aðferðir fyrir áhættu-og ávinningsgreiningu í matvælum. Vinnan í verkefninu byggist á öllum þáttum áhættu- og ávinningsgreiningar þ.e.a.s. áhættu- og ávinningsmati ,áhættu- og ávinningsstjórnun, áhættu- og ávinningskynningu.

Á ráðstefnunni taka meðal annars til máls Hans Verhagen sem er mikils metinn fagmaður á sviði áhættu- og ávinningsgreiningu matvæla (risk-benefit analysis) í matvælum. Hans stýrir  45-50 manna deild sem vinnur á þessu sviði hjá RIVM National Institute for Public Health and the Environment í Hollandi. Auk þess gegnir hann prófessorstöðu við Maastricht University í Hollandi. Fundurinn á þessa daga er því gott tækifæri til að fræðast um þessi mál frá þeim sem er meðal þeirra fremstu á sínu sviði.  

Dagskrá fundarins má sjá hér.


Fréttir