Umfangsmikill styrkur frá ESB

8.8.2003

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins tekur þátt í umfangsmiklu verkefni um heilnæmi sjávarfangs á vegum Evrópusambandsins Markmiðið er að auka neyslu á fiski, rannsaka áhrif hans á heilsu og vellíðan fólks, stuðla að auknu öryggi sjávarafurða og frekari fullvinnslu sjávarfangs þ.m.t markfæði

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins tekur þátt í umfangsmiklu verkefni um heilnæmi sjávarfangs á vegum Evrópusambandsins.

Rannsóknaverkefnið “Seafood plus” sem Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins er leiðandi í hér á landi hefur verið valið eitt af 6 matvælaverkefnum sem Evrópusambandið mun styrkja næstu fimm árin. Alls bárust 69 umsóknir til ESB í apríl s.l. Verkefnið er það umfangsmesta sem Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hefur tekið þátt í.

Markmiðið er að auka neyslu á fiski, rannsaka áhrif hans á heilsu og vellíðan fólks, stuðla að auknu öryggi sjávarafurða og frekari fullvinnslu sjávarfangs þ.m.t markfæði.

Samtals 17 lönd taka þátt í verkefninu og eru þátttökuaðilar 80. Verkefnið hefur verið samþykkt en samningaviðræður standa yfir og mun verkefnið hefjast 2004

Verkefnið er samansett af 22 verkefnum sem skipt er í 5 meginflokka: næringarfræði, neytendur, öryggi, vinnslu og vöruþróun, fiskeldi og auk þess er rekjanleiki sem gengur þvert á öll verkefnin.
Markmið rannsókna í næringarfræði er að kanna áhrif sjávarfangs í fæði á tíðni hjarta- og æðasjúkdóma, krabbameins og sýkinga.
Í neytendarannsóknum verður lögð áhersla á að kanna hvaða þættir hafa áhrif á neyslu sjávarfangs og leita leiða til að laga vörur að kröfum neytenda.
Rannsóknir til að auka öryggi sjávarfangs munu felast í því hvernig forðast megi sýkingar/veikindi af völdum veira, gerla og biogeniskra amína í sjávarfangi.
Meginmarkmið vinnslurannsókna er að leggja grunn að þróun nýrra afurða og nýjum vinnsluferlum til framleiðslu á markfæði sem hentar til að bæta heilsu, tryggja næringargildi og öryggi.
Megináhersla í fiskeldisrannsóknunum er að rannsaka áhrif fóðurs, eldisaðferða, erfða og meðferðar við slátrun á gæði og eiginleika hráefnisins.
Rekjanleiki verður þróaður frá lifandi fiski til neytendavöru svo hægt sé að rekja hvert atriði frá neytendum út á mið eða í fiskeldisstöð.
Hliðarverkefni sem verða rekin samhliða rannsóknarverkefnunum eru tækniyfirfærsla, þjálfun og miðlun upplýsinga.

Verkefnið er skipulagt til 5 ára og heildarkostnaður verkefnisins er áætlaður um 4 milljarðar ísl kr, þar af var sótt um 2 milljarða til 5 ára til ESB. Rf sótti þar af um 100 milljónir ísl kr fyrir sínar rannsóknir.

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins er þátttakandi í verkefninu og munu margir starfsmenn Rf koma að verkefninu í samstarfi við fjölmarga aðila jafnt innanland sem erlendis. Um er að ræða einstakt tækifæri fyrir Ísland að taka þátt í slíku verkefni.

Frekari upplýsingar á heimasíðu verkefnisins: http://www.seafoodplus.org/index7/index.htm

Reykjavík, 07.08 2003
Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins
Sjöfn Sigurgísladóttir, sími: 8938251, 5308600


Fréttir