Hugbúnaður til að spara orku í sjávarútvegi

21.5.2003

Hugbúnaður, sem unnið hefur verið að á Rf í samvinnu við innlend og erlend fyrirtæki og skóla, getur hugsanlega sparað hundruðir milljóna króna og um leið dregið verulega úr losun gróðurhúsaáhrifa. Hugbúnaðurinn nefnist ORKUSPAR og hægt er að nálgast hann ókeypis á netinu.

Á undanförnum árum hafa umhverfismál orðið sífellt meira áberandi í þjóðfélagsumræðunni. Á stórum ráðstefnum eins og í Ríó 1992 og í Kyoto 1995, komu þjóðir heims sér saman um sameiginleg markmið í þessum málaflokki í framtíðinni. Eitt af markmiðum Kyoto ráðstefnunnar var t.a.m. að minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.

Nú hefur verið þróaður hugbúnaður til bæta orkunýtingu og um leið minnka kostnað og draga úr umhverfisáhrifum og nefnist þessi hugbúnaður ORKUSPAR-Orkuhermir.

ORKUSPAR-orkuhermirinn er tölvuforrit, sem unnt er að nota til að minnka orkunotkun og draga þannig úr umhverfisáhrifum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda frá fiski- og flutningaskipum og í bolfiskvinnslu.

Árið 2001 var olíunotkun Íslendinga alls 833.000 tonn. Fiskiskip notuðu það ár 225.000 tonn eða 27% af heildinni. Verð á flotaolíu er nú 30,40 kr/kg án VSK. Ef 10% af olíunotkuninni myndu sparast með tilkomu ORKUSPAR svarar það til 684 milljónum króna á ári. Þar sem stærri fiskiskip eins og togarar nota aðra olíutegund (marine diesel oil) sem er 6-7% ódýrari er sparnaðurinn kannski í raun aðeins minni, gæti numið um 650 milljónum króna á ári.

Hægt er nálgast hugbúnaðinn og skoða aðrar upplýsingar um verkefnið með því að smella á ORKUSPAR á heimasíðu Rf. Nánari upplýsingar veitir Eva Yngvadóttir, efnaverkfræðingur á Rf: bs: 530 8656 / 530 8600 / eva@rf.is
Sigurjón Arason: 891 8660


Fréttir