• Hausaður og slógdreginn makríll

Makrílvinnsla í íslenskum fiskiskipum

10.12.2009

Fiskveiðiárið 2004/2005 var fyrst skráður makrílafli í íslenskri lögsögu, síðan þá hefur aflinn aukist frá ári til árs en fiskveiðiárið 2008/2009 var sett þak á veiðarnar, þá mátti veiða 100 þúsund tonn af makríl með norsk-íslensku síldinni í íslenskri lögsögu.

Makríllinn hefur aðallega veiðst í júlí og ágúst við strendur Íslands en sumarið 2009 fóru íslensku skipin að fá makríl með síldinni í júní og veiddu makríl fram í september. Fyrir næsta veiðiár hefur verið úthlutað 130 þúsund tonnum af makríl. 

Til að hægt sé að vinna makríl um borð í íslenskum fiskiskipum þurfa þau að hafa ákveðinn búnaði, fyrst þarf að vera til staðar flokkari sem flokkar makrílinn frá síldinni. Style flokkarar hafa reynst vel í þeim efnum en einnig er unnt að stærðarflokka makrílinn í þeim búnaði. Breyta þarf hefðbundinni vinnslulínu sem notuð er fyrir vinnslu og frystingu á síld þannig að hægt verði að hausa og slógdraga makrílinn áður en hann er frystur. Markaður er aðallega fyrir hausaðan og slógdreginn makríl, enda er geymsluþol hans mest þannig.

Mikilvægt er að geta flokkað makrílinn frá norsk-íslensku síldinni þegar viðkomandi tegundir veiðast saman til að skapa sem mest verðmæti úr aflanum í stað þess að senda stóran hluta af makrílblönduðum síldaraflanum í bræðslu. Fjölmargar tilraunir hafa verið gerðar með flokkun tegundanna og hafa þær gengið vel, hvort sem um er að ræða vinnslu á eingöngu annarri tegundinni eða báðum í einu.


Fréttir