• thorskflok

Örugg aðferð gegn svindli

16.6.2009

Hjá Matís ohf. hefur verið lokið við að þróa fljótvirka og áreiðanlega aðferð til að tegundagreina íslenska sjávarnytjastofna, en aðferðin byggir á erfðagreiningum.

Í könnun í Bandaríkjunum kom í ljós að um 25% seldra fiskafurða á mörkuðum eða í veitingahúsum eru ekki seldar undir réttu heiti og að sjálfsögðu er þá verið að selja ódýran fisk sem dýrari tegund (sjá nánar). Ef þetta hlutfall er almennt þá er hér verið að svindla á neytendum sjávarfangs um miklar fjárhæðir.

Þetta verkefni sem AVS sjóðurinn styrkti leiðir af sér annan ávinning ekki síður mikilvægan, sem er að greina ýmsar sjávarlífverur sem erfitt er að tegundagreina með útliti einu saman. Slíkar aðferðir eru mjög tímafrekar og krefjast þjálfaðra flokkunarfræðinga. Erfrðagreiningaraðferðin er fljótvirk og gefur áreiðanlega niðurstöðu en hægt er að greina egg, lirfur, seiði og ungviði fiska sem getur verið erfitt að greina t.d. ef sýni eru ekki heil eða greina á óþroskuð lífsform.

Einnig er mikill áhugi á að geta greint samsetningu magainnihalds úr nytjastofnum en slíkar athuganir eru mikilvægar við að meta vistfræðileg tengsl nytjastofna. Þannig geta þessar erfðafræðirannsóknir varpað ljósi á hversu umfangsmikið át ýmissa nytjafiska gæti verið á eggjum, lirfum og seiðum eigin og annarra nytjastofna.

Erfðagreiningaraðferðin sem þróuð var byggir á raðgreiningu á þremur tegundaaðgreinandi genum (merkigenum). Markmiðið var að byggja upp gagnagrunn fyrir 26 nytjastofna sjávar. Erfðagreining var gerð á hvatberagenunum cytochrome c oxidase subunit 1 (COI), cytochrome b (Cytb) og 16S RNA (16S) úr nokkrum sýnum úr þeim 26 tegundum sem skilgreindar eru sem nytjastofnar Íslands. Aðferðin var prófuð á óþekktum sýnum sem fengust úr fiskverslunum, úr sýnasafni Hafrannsóknarstofnunarinnar og að lokum voru greind seiði sem voru 2-8 cm löng. Í öllum tilvikum tókst að tegundagreina sýnin með DNA erfðagreiningaraðferðinni meðan útlitsgreiningar á seiðunum voru nokkuð erfiðar.

Þetta nýja rannsóknartól nýtist þeim sem stunda rannsóknir á sjávarlífverum auk þess sem að það getur nýst mjög vel við úrlausn sívaxandi vafamála á mörkuðum.

Skýrsla verkefnisstjóra: Þróun erfðagreiningaraðferðar til tegundaákvörðunar helst nytjastofna Íslands.

Tilvísunarnúmer AVS: R 012-07


Fréttir