• matis

Hrönn Ólína Jörundsdóttir ver doktorsritgerð sína í umhverfisefnafræði

25.2.2009

Starfsmaður Matís, Hrönn Ólína Jörundsdóttir, varði doktorsritgerð sína “Útbreiðsla og breytingar í magni þrávirkrar lífrænnar mengunar í langvíueggjum frá Norðvestur Evrópu” (Temporal and spatial trends of organohalogens in guillemot (Uria aalge) in North Western Europe) þann 6. febrúar 2009 við Umhverfisefnafræðideild Stokkhólmsháskóla.

Ritgerðin fjallar í stórum dráttum um þrávirka lífræna mengun á Norðurlöndunum, t.d. PCB og skordýraeitrið DDT ásamt niðurbrotsefnum þeirra, sem mæld voru aðalega í langvíueggjum. Efnin voru mæld í eggjum frá Íslandi, Færeyjum, Noregi og Svíþjóð til að fá landfræðilegan samanburð.

Niðurstöður sýna að lífríki Norður Atlantshafsins er minna mengað en lífríki Eystrasaltsins, en þó reyndust ýmiss mengandi efni vera í svipuðum styrk á þessum svæðum og þarf að rannsaka nánar af hverju það stafar. Flúoreruð alkanefni, sem koma m.a. úr útivistarfatnaði, hafa nýlega fundist í umtalsverðu magni í náttúrunni mældust í langvíueggjum frá Íslandi, Færeyjum, Noregi og Svíþjóð og voru í einstaka tilfellum í hærri styrk í eggjum frá N-Atlantshafi en í Eystrasaltinu. Brómeruð eldvarnarefni, sem m.a. eru notuð í raftæki, voru allstaðar mælanleg og virðist vera hægt að greina mismunandi uppruna efnanna sem berast til Norður Atlantshafsins, annars vegar frá N-Ameríku og hins vegar frá Evrópu.

Einnig var gerður samanburður á magni mengandi efna í sjö íslenskum fuglategundum, þ.e. kríu, æðarfugli, langvíu, fýl, sílamáfi, svartbak og skúmi. Skúmurinn reyndist hafa umtalsvert háan styrk mengandi efna, m.a. PCB sambanda og skordýraeitursins DDT, og er mikilvægt að rannsaka heilsuástand skúmsins.

Ljóst er að hluti þeirrar mengunar sem mælist í íslensku lífríki berst með haf- og loftstraumum til Íslands en hins vegar er umtalsverður hluti tilkominn vegna notkunar Íslendinga á varningi sem inniheldur margvísleg mengandi efni.

Leiðbeinendur voru dr. Åke Bergman prófessor í umhverfisefnafræði við Háskólann í Stokkhólmi, dr. Anders Bignert prófessor, Náttúrugripasafn Svíþjóðar og dr. Mats Olsson prófessor emeritus. Andmælandi var Dr. Derek Muir, Environment Canada.

Prófnefndina skipuðu þau dr. Kristín Ólafsdóttir, dósent við Háskóli Íslands, dr. Björn Brunström, prófessor við Háskóla Uppsala og dr. Conny Östman, dósent við Háskóla Stokkhólms.

Frekari upplýsingar veitir Hrönn, hronn.o.jorundsdottir@matis.is.
Fréttir