• matis

Frauðplast einangrar betur en bylgjuplast

14.1.2009

Í rannsóknum Björns Margeirssonar doktorsnema hjá Matís kom í ljós að frauðplastkassar hafa töluvert meira einangrunargildi en sambærilegir kassar úr bylgjuplasti. Miklu máli skiptir að umbúðir verji vöruna fyrir hitasveiflum á leið hennar á markað.

Verkefnið „Hermun kæliferla“ er styrkt af AVS sjóðnum, Tækniþróunarsjóði RANNÍS og Rannsóknasjóði HÍ og er ætlunin að bæta hitastýringu í vinnslu- og flutningaferlum fyrir fiskafurðir. Að undanförnu hafa verið gerðar umfangsmiklar tilraunir með tvenns konar pakkningar fyrir fersk fiskflök þ.e. bylgjuplastkassa annars vegar og frauðplastkassa hinsvegar. Sett voru fersk flök í báðar gerðirnar ásamt hitasíritum, einnig voru kassarnir með og án ísmotta. Kælimotturnar (ísmotturnar) reyndust afar áhrifaríkar til að verja fiskflökin fyrir hitaálagi. Jafnframt sýndu niðurstöður fram á yfirburði varmaeinangrunar frauðplastkassa umfram bylgjuplastkassa óháð notkun kælimotta. Mismunur einangrunargildis er reyndar enn sýnilegri þegar kælimottur eru notaðar. Tilraunir með fullstaflað bretti af fiskikössum (u.þ.b. 300 kg á bretti) sýndu að meðalhitahækkun flaka getur verið tvöföld fyrir bylgjuplastkassa m.v. frauðplastkassa, að því gefnu að loftið umhverfis sé 10 °C heitt og á töluverðri hreyfingu.

Hitastig-flaka-og-umhverfis
Græna, granna línan sýnir lofthitann umhverfis pakkningarnar en hinar línurnar hita flaka inni í kössum.

Að lokum var sýnt fram á að nokkurra klst. sveiflur í lofthita umhverfis heil fiskibretti geta valdið mjög ójafnri hitadreifingu innan stæðunnar á brettinu. Í verkefninu "Hermun kæliferla" verða þróuð varmaflutningslíkön, sem nota má til að meta áhrif þess hitaálags, sem pakkaðar fiskafurðir verða óhjákvæmilega fyrir í flutningaferlum. Einnig verða skoðaðir möguleikar á endurhönnun á pakkninga til að tryggja betri vöru.

Nálgast má hér skýrslu verkefnisstjóra: Thermal Performance of Corrugated Plastic boxes and Expanded Polystyrene Boxes
Fréttir