Hangikjöt: Sambærileg vara og Parmaskinka, San Daniels og Serrano?

20.8.2008

Matís er að undirbúa verkefni um reykt og þurrkað lambakjöt og óskar eftir samvinnu við lítil, staðbundin fyrirtæki vegna þróunar reyktra og þurrkaðra afurða úr lambakjöti. Loftþurrkað lambakjöt ætti að skipa sama sess og loftþurrkuð skinka (s.s. Parma, San Daniels og Serrano) gerir í Suður-Evrópu.

Matís kannar áhuga framleiðenda á að vera með í þróunarverkefni um reykt og þurrkað lambakjöt. Verkefnið skiptist í tvennt, annars vegar fræðslu og vöruþróun sem snýr að staðbundinni matvælaframleiðslu og matarferðamennsku á Íslandi og hins vegar samstarf við aðila í Færeyjum og Noregi um þróun á loftþurrkuðum/reyktum afurðum úr lambakjöti.

Fyrsti hluti verkefnisins er greiningu á stöðu mála á Íslandi, þ.e. úttekt á því hversu margir eru að framleiða eða hafa áhuga á að framleiða reykt og/eða þurrkað kindakjöt og að átta sig á þörfinni og áhuga á fræðslu, ráðgjöf og samstarfi um vöruþróun og kynningu/markaðssetningu á þessum afurðum.

Sem hluti af verkefninu hefur nú verið útbúin könnun sem hefur það markmið að kanna hver áhugi er á og núverandi staða framleiðsla á loftþurrkuðu lambakjöti er hér á landi. Matís hvetur alla sem að hafa áhuga á málefninu að taka þátt. Könnunin verður opin til þátttöku til 5. september

Nánari upplýsingar um verkefnið og leiðbeiningar um þátttöku í netkönnuninni er að finna hér.
Fréttir