• Makríll

Rannsókn á Matís: nýting makríls sem veiðist á Íslandsmiðum

23.6.2008

Makríll hefur hingað til ekki talist til nytjastofna á Íslandsmiðum, enda eru heimkynni hans einkum út af Austurstönd N-Ameríku, í Norðursjó, Miðjarðarhafi og Svartahafi. Á síðustu árum hafa íslensk síldveiðiskip hins vegar orðið vör við makríl í auknum mæli og hafa skipin veitt makríl í bland við norsk-íslensku síldina austur af landinu síðsumars. Makríll er mjög verðmikill fiskur og verðið er oft yfir 100 kr/kg. fyrir ferskan haustveiddan fisk í vinnslu og fyrir frosinn slægðan fisk veiddan yfir sumartímann. Á Matís er nú að fara af stað verkefni sem kallast Veiðar, flokkun, vinnsla og markaðir fyrir makríl veiddan af uppsjávarskipum.

Markmiðið með þessu verkefni er að kanna veiðar uppsjávarfiskiskipa á makríl á Íslandsmiðum, gera mælingar á lögun, koma með lausnir hvernig flokka megi makrílinn frá öðrum fiski um borð og hvernig vinnslu skuli háttað í frystiskipum. Greindur verður tækjakostur sem nauðsynlegur er við vinnsluna, einnig verða markaðir kannaðir fyrir makríl veiddan á Íslandsmiðum eftir árstímum. Stefnt er að því að afrakstur verkefnisins verði sjófrystar íslenskar makrílafurðir en þær hafa ekki verið framleiddar hingað til.
 
Útgerðir munu geta nýtt sér niðurstöður verkefnisins sem stuðning ef þær hyggjast hefja makrílveiðar með síldveiðum hér við land, einnig mun þetta verkefni undirbúa útgerðirnar ef vaxandi makrílgengd á Íslandsmiðum reynist til langframa.

Verkefnisstjóri er Ragnheiður Sveinþórsdóttir.
Fréttir