• Við Viktoríuvatn í maí 2007

Matís heldur námskeið í Kenía

22.5.2008

Tveir starfsmenn Matís eru á förum til Kenía til að halda þar námskeið fyrir fiskeftirlitsmenn. Námskeiðið er haldið á vegum Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og er hugsað sem framhaldsnám fyrir starfandi fiskeftirlitsmenn þar í landi.

Um er að ræða nýja nálgun við menntun í þróunarríkjum þar sem tilgangurinn er ekki eingöngu að halda námsskeið heldur einnig að koma á fót sjálfbæru námskeiði, sem heimamenn taka yfir í framhaldi af dvöl starfsmanna Matís.


Upphaflega stóð til að halda námskeiðið í Kisumu, við Viktoríuvatn, en að sögn Margeirs Gissurarsonar, annars sérfræðinga Matís sem mun halda námskeiðið, er ástandið í Kisumu enn ótryggt eftir óeirðirnar sem urðu eftir kosningar í landinu í lok síðasta árs.

Námskeiðið verður í staðinn haldið í hafnarborginni Mombasa, sem er næststærsta borg Kenía. Margeir heldur utan 24. maí og mun Franklín Georgsson svo bætast í hópinn 31. maí. Báðir eru vanir Afríkufarar og vel kunnir frumskógum Afríku, en þeir hafa t.a.m. haldið námskeið í Mósambik á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞÞSÍ) og fóru til Kenía árið 2007 til að undirbúa fyrirhugað námskeið.

Á myndinni má sjá Franklín Georgsson (2. fv; Margeir Gissurarson (f. miðju) og Sigríði Ingvarsdóttur, starfsmann Sjávarútvegsskóla Háskóla S.þ., á spjalli við heimamenn í Kisumu í fyrra.
Fréttir