• Hardfisksauglysing

Próteinbombur: Harðfisksskýrsla Matís notuð í auglýsingu

20.1.2008

Harðfisksframleiðandinn Gullfiskur beitti nýstárlegu bragði í auglýsingu í fjölmiðlum þegar fyrirtækið vísaði í skýrslu Matís um hollustu harðfisks. Í auglýsingunni, sem er undir heitinu Próteinbombur, segir að samkvæmt nýrri skýrslu Matís sé harðfiskur enn hollari en talið var.

Í skýrslu Matís, sem kom út á miðju ári 2007, segir að harðfiskur se afar heilsusamleg fæða, létt, næringarrík og rík af próteinum, Þar segir að harðfiskur sé ríkulegur próteingjafi með 80-85% próteininnihald.

Sífellt hefur komið betur í ljós að fiskprótein skipta verulegu máli hvað hollustuáhrif varðar. Sem dæmi má nefna að fersk ýsa er með 17-19% próteininnihald en harðfiskur úr ýsu er með 75-80% próteininnihald. Gert er ráð fyrir því að fullorðinn heilbrigður einstaklingur þurfi 0,75 g af próteinum á hvert kg líkamans. Því þarf karlmaður sem er 70 kg að fá 53 g af próteinum á dag. Til að fá þetta magn úr harðfiski þarf hann að borða rúmlega 66 g. Kona sem er 55 kg þarf 41 g af próteinum á dag, eða 51 g af harðfiski.

Harðfiskur hentar þess vegna vel fyrir þá sem sækjast eftir að fá viðbótarprótein úr fæðu sinni, svo sem fyrir fólk sem stundar fjallgöngu eða íþróttir og heilsurækt. Ennfremur hefur komið í ljós að saltinnihald er nokkuð hærra í harðfiski sem er inniþurrkaður en fisks sem er útiþurrkaður. Hins vegar er hægt að stjórna saltinnihaldi í vörunni og því auðvelt að stilla slíkri notkun í hóf. Snefilefni (frumefni) eru vel innan við ráðlagðan dagskammt, nema selen. Magn selen í 100 g er á við þrefaldan ráðlagðan dagskammt en ekki talið skaðlegt á nokkurn hátt.

Hægt er að lesa skýrslu Matís um hollustu harðfisks hér.

Auglýsing Gullfisks er hér.


Fréttir