• Úr verslun.

Hugsandi fólk borðar hollt

4.1.2008

Hugsandi fólk framtíðarinnar borðar hollt, reykir ekki og er vel borgandi, að því er fram kemur í viðtali við Ragnar Jóhannsson, sviðstjóra hjá Matís, í Morgunblaðinu. Hann segir að hér fari sístækkandi markaður, sem vert væri að gera út á.

Þar segir að verslunarvörurnar væru þó viðkvæmar og með takmarkað geymsluþol, s.s. fiskur og grænmeti sem oft þarf að flytja langar leiðir. "Matur framtíðarinnar fyrir hugsandi fólk kemur í auknum mæli til með að snúast bæði um hollt og ferskt þar sem hollur matur er jafnframt sá ferskasti sem völ er á. Hér er um að ræða mat, sem inniheldur fosfólípíð með hátt hlutfall omega-3 fitusýra auk andoxunarefna, sem þeim fylgja frá náttúrunnar hendi. Dæmi um þetta er fiskur og grænmeti. Þessar matvörur eru þó vanalega viðkvæmar og hafa takmarkað geymsluþol,“ segir Ragnar.

Vel menntað fólk með rúm fjárráð

Þá kemur fram að lífslíkur Evrópubúa séu að aukast þó líkur á heilbrigðu lífi hafi ekki vaxið jafn hratt. „Stækkandi hluti Evrópubúa er því vel menntað fólk með rúm fjárráð og það er akkúrat hinn hugsandi markaður framtíðarinnar. Þetta er fólk, sem vill vera jafn vel á sig komið um fimmtugt og um tvítugt og þetta fólk vill helst geta hlaupið hálft maraþon við sjötugsaldurinn. Í þessu samhengi er við hæfi að rifja upp söguna af grísku gyðjunni Eos, sem bað guðinn Seif um að gera hinn föngulega ástmann sinn Tithonus ódauðlegan. Seifur brást vel við bóninni, en gleymdi að gefa ástmanninum fagra eilífa æsku. Það fór því svo að gyðjuna Eos dagaði uppi í umhyggju- og öldrunarþjónustu með ellihrumt gamalmenni í nokkur þúsund ár. Við viljum náttúrulega ekkert lenda í þessu,“ segir Ragnar í samtali við Jjóhönnu Ingvarsdóttur blaðamann Morgunblaðsins.

Að viðhalda æskuljómanum

Þá kemur fram í viðtalinu að til að viðhalda æskuljómanum og heilsunni sé einkum þrennt sem hafi áhrif: matur, hreyfing og erfðir. „Við verðum einfaldlega að taka því sem að höndum ber í erfðalegu tilliti því erfðunum er búið að „klúðra“ strax við getnað og við fáum engu breytt í þeim efnum,“ segir Ragnar.

„Við hefðum nefnilega þurft að velja okkur foreldra af kostgæfni fyrir getnað til að hafa áhrif á þann þátt tilverunnar. Hins vegar hefur bæði hreyfingin og mataræðið heilmikið að segja um hvernig okkur kemur til með að reiða af. Sýnt hefur fram á að hreyfing og heilaleikfimi framkallar meira magn pósítífra fitusýrna í blóði en ella, sem þýðir með öðrum orðum að notkun á líkamanum í stað kyrrstöðu eykur endingu hans," segir Ragnarí samtali við Morgunblaðið.

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni í Morgunblaðinu 3. janúar.


Fréttir