• Matarferðamennska

Matarferðamennska verði efld

3.1.2008

Matís vill efla matarferðamennsku á Suðausturlandi og óskar fyrirtækið eftir samstarfi við áhugasama aðila á svæðinu sem búa yfir góðri hugmynd að staðbundinni matvöru. Guðmundur H. Gunnarsson, verkefnastjóri Matís á Höfn, segir að markmiðið með verkefninu sé að efla atvinnulíf og auka framlegð með frekari vinnslu staðbundinna afurða á svæðinu.

“Við leitum að samstarfsaðilum í matarferðarmennsku. Verkefnið felur í sér þróun á vörum úr staðbundnu hráefni sem unnt er að selja til ferðamanna á svæðinu.”

Hann segir að með matarferðamennsku sé leitast við að framleiða matvöru úr staðbundnu hráefni sem höfðar til ferðamanna. “Þannig er hægt að auka framlegð innan svæðis bæði með frekari vinnslu hráefnis, sölu staðbundinna afurða og lengri dvöl ferðamanna. Það er ljóst að eftirspurn eftir staðbundnum afurðum hefur aukist m.a. vegna áhuga ferðamanna á að upplifa og taka með sér sérstöðu svæða þegar kemur að matvælum,” segir Guðmundur. “Við viljum ýta enn frekar undir þennan áhuga og aðstoða heimamenn að hasla sér völl á þessum vettvangi.”

Matarferðamenneskan hluti af menningar- og afþreyingartengdri ferðaþjónustu

“Við finnum fyrir auknum áhuga heimamanna á samþættingu matavæla, menningar og ferðamennsku. Gott dæmi um það er stofnun klasans Í ríki Vatnajökuls sem vinnur að framgangi slíkrar samþættingar. Þar sameinast aðilar á svæðinu um heildarmarkaðsetningu þess. Það er einnig ljóst að markhópurinn er til staðar hér á svæðinu. Samkvæmt rannsóknum er áætlað að helmingur allra erlendra ferðamanna heimsæki svæðið yfir sumartímann eða um 120 þúsund á ári og það á bara eftir að aukast,” segir Guðmundur.

Hann segir að matarferðamennska feli í raun í sér upplifun ákveðins staðar eða svæðis í gegnum neyslu á stað- eða svæðisbundnum mat og drykk. “Þarna eru dregin fram hráefni og framleiðsluaðferðir sem tíðkast á svæðinu og skapa því sérstöðu. Matarferðamenneskan getur því verið hluti af menningar- og afþreyingartengdri ferðaþjónustu, svo sem á veitingahúsum sem bjóða gestum staðbundnar afurðir, eins og humar hér á Höfn. Þá er hægt að hugsa sér sölu á heimaframleiðslu bænda, matarhátíðir og matreiðslunámskeið svo dæmi séu tekin,” segir Guðmundur.

Hann segir að Matís hafi áhuga á því að styðja við uppbyggingu á matarferðamennsku á landsvísu en með áherslu á Suðausturland. “Við viljum koma að þróun á vörum úr staðbundnu hráefni með áhugasömum aðilum á þessu svæði. Framlag Matís fellst í sérfræðiþekkingu og búnaði til vöruþróunar og stuðningi frá hugmynd að vöru.”

Nánar um matarferðamennsku.


Fréttir