• Eldisþorskur.

Hægt að lækka fóðurverð fyrir eldisþorsk um 30%

Felur í sér 15% lægri framleiðslukostnað

18.12.2007

Hægt er að lækka fóðurverð fyrir eldisþorsk um allt að því 30% og lækka þar með framleiðslukostnað um 15% með því að draga úr próteinnotkun og auka fitu. Þá er hægt að lækka fóðurkostnað því að nota ódýrara fiskimjöl og hráefni úr jurtaríkinu í fóðrið, aðallega hjá stærri fiski, að því er fram kemur í rannsókn á þróun sjófiskafóðurs.

Verkefnið: Þróun sjófiskafóðurs er samstarfsverkefni Matís, Fóðurverksmiðjunnar Laxár, Háskólans á Hólum, Versins á Sauðárkróki og Háskólans á Akureyri. Það var styrkt af AVS rannsóknasjóði.

Jón Árnason deildarstjóri á eldisdeild Matís segir mikilvægt að rannsaka sérstaklega fóður fyrir fiskeldi því það sé langstærsti einstaki kostnaðarliður eldisfyrirtækja vegna framleiðslunnar, eða í kringum 55% af rekstrarkostnaði við framleiðslu á hvert kg af þorski. “Stór hluti rannsókna á fóðri á heimsvísu hefur hingað til verði unnin innan fóðurfyrirtækja og þess vegna eru niðurstöður oft ekki opinberar. Því skiptir miklu máli fyrir fiskeldisfyrirtæki hér á landi að fá í hendur nýjar rannsóknir um hvernig þau geti lækkað kostnað,” segir Jón.

Prótein er dýrasta hráefnið í fóðurgerð

Hann segir að þorskur bregðist við mismunandi hráefnum í fóðri; hann hafi þörf fyrir ýmis næringarefni en einkum mikla þörf fyrir prótein, sem sé nauðsynlegur þáttur til uppbyggingar á fiskholdi. Próteinið er hins vegar dýrasta meginhráefnið í fóðurgerð. “Það skiptir þorskinn ekki öllu máli að fá allt próteinið úr hágæða fiskimjöli heldur getur hann að vissu marki nýtt sér aðrar gerðir fiskimjöls og prótein úr jurtaríkinu,” segir Jón.Fiskur til sýnis á European Seafood Exposition í Brussel.

Niðurstöður tilrauna með mismikið prótein í fóðri sýna að ekki sé tölfræðilegur munur á vexti ef prótein er aukið umfram 48% í 70 gr. fiski. Þá sé ekki ávinningur að því að auka prótein umfram 39-43% í fóðri fyrir 600 gr. fisk. Það er því hægt að lækka hráefniskostnað með því að lækka próteininnihald í fóðri frá því sem er í dag án þess að það komi niður á vexti.

Þá segir Jón að aukning fitu í fóðri valdi einhverri aukningu í lifraprósentu hjá 500-800 gr. þorski en hún sé innan þess sem fundist hafi í villtum þorski við landið. Þó sé marktæk hærri lifraprósenta í smærri þorski við aukna fitu í fóðri. Þetta þýðir að hægt er að skipta út próteini fyrir fitu upp að vissu marki.

Ótvíræðar niðurstöður

Niðurstöður verkefnisins benda til þess að ýmsir möguleikar séu fyrir hendi til þess að lækka fóðurkostnað. Hægt sé að nota mismunandi hráefni og lækka prótein miðað við notkun dagsins í dag. Þá er ennfremur mögulegt að nota meiri fitu, einkum í stærri fiski.

Jón segir að afrakstur rannsókna á fóðri fyrir þorskeldi hér á landi séu ótvíræðar. “Niðurstöður benda til þess að hægt sé að lækka fóðurverð um 30% og lækka þar með framleiðslukostnað á þorski um 15%, ef tekið er mið af hráefnisverði frá því fyrr á þessu ári. Þá eru tækifæri til þess að lækka fóðurkostnað enn frekar með þvi að stilla nákvæmlega af hlutföll hráefna í fóðri með hliðsjón af meltanleika næringarefnanna í þeim.”


Fréttir