Harðfiskur er enn heilsusamlegri en talið var

Er með 80-85% próteininnihald

6.7.2007

HarðfiskurHarðfiskur er afar heilsusamleg fæða, létt, næringarrík og rík af próteinum, að því er fram kemur í nýrri rannsókn Matís á harðfiski sem heilsufæði. Þar kemur í ljós að harðfiskur er ríkulegur próteingjafi með 80-85% próteininnihald.

Þá er harðfiskur ávallt unnin úr nýju og fersku hráefni og er nær eingöngu veiddur á línu og því tryggt að hann verði fyrir sem minnstu hnjaski á leið til lands. Slík veiðiaðferð uppfyllir bestu skilyrði um vistvænar veiðar.

Harðfiskur, sem er unnin úr steinbít, ýsu, þorski, kolmuna og lúðu, var lengi vel einn helsti matur Íslendinga. Þurrkunin varðveitti næringarefni vel og gerði það að verkum að hægt var að geyma hann og hafa á boðstólum allt árið um kring þegar matarframboð sveiflaðist eftir ársíma. Á seinni tímum hefur verið hefð fyrir því að borða harðfisk á þorranum. Þá hefur hans verið neytt sem nasls í heimahúsum og sem nesti í sumarfríum. Heildarframleiðsla og sala hefur verið um 200-250 tonn á ári.

IMG_3327Sífellt hefur komið betur í ljós að fiskprótein skipta verulegu máli hvað hollustuáhrif varðar. Sem dæmi má nefna að fersk ýsa er með 17-19% próteininnihald en harðfiskur úr ýsu er með 75-80% próteininnihald. Gert er ráð fyrir því að fullorðinn heilbrigður einstaklingur þurfi 0,75 g af próteinum á hvert kg líkamans. Því þarf karlmaður sem er 70 kg að fá 53 g af próteinum á dag. Til að fá þetta magn úr harðfiski þarf hann að borða rúmlega 66 g. Kona sem er 55 kg þarf 41 g af próteinum á dag, eða 51 g af harðfiski.

Harðfiskur hentar þess vegna vel fyrir þá sem sækjast eftir að fá viðbótarprótein úr fæðu sinni, svo sem fyrir fólk sem stundar fjallgöngu eða íþróttir og heilsurækt. Ennfremur hefur komið í ljós að saltinnihald er nokkuð hærra í harðfiski sem er inniþurrkaður en fisks sem er útiþurrkaður. Hins vegar er hægt að stjórna saltinnihaldi í vörunni og því auðvelt að stilla slíkri notkun í hóf. Snefilefni (frumefni) eru vel innan við ráðlagðan dagskammt, nema selen. Magn selen í 100 g er á við þrefaldan ráðlagðan dagskammt en ekki talið skaðlegt á nokkurn hátt.

Því sýnir rannsókn Matís fram á að harðfiskur uppfyllir öll skilyrði sem góður próteingjafi.

Hægt er að skoða efnainnihald harðfisks í ÍSGEM (íslenskur gagnagrunnur um efnainnihald matvæla) hér.

Verkefnið er styrkt af AVS rannsóknarsjóður í sjávarútvegi.

Skýrsla Matís um harðfisk (Niðurstöður rannsóknar).
Fréttir