• María Guðjónsdóttir í Nottingham

Ungur vísindamaður frá Rf vakti athygli í Nottingham

24.7.2006

Dagana 16.-19. júlí var ráðstefnan The 8th International Conference on The Application of Magnetic Resonance in Food Science haldin í Nottingham í Englandi. Ráðstefna sem þessi er haldin á tveggja ára fresti og á þeim er fjallað um helstu nýjungar í notkun kjarnspunatækni (Nuclear Magnetic Resonance) í matvælarannsóknum hverju sinni. Ungri vísindakonu á Rf, Maríu Guðjónsdóttur, var nokkuð óvænt boðið að halda erindi á ráðstefnunni að þessu sinni.

Upphaflega stóð til að María myndi sækja ráðstefnuna fyrir hönd Rf og kynna þar tvö verkefni á veggspjöldum: “Low field NMR study of the state of water at superchilling and freezing temperatures and the effect of salt on freezing processes of water in cod mince” og “Low field NMR study on seven dry salting methods of cod (Gadus morhua.) Sendi hún afrit af veggspjöldunum til ráðstefnuhaldara í maí, eins og tilskilið var. 

Fyrrnefnda verkefnið vakti hins vegar sérstaka athygli og var valið eitt af fjórum áhugaverðustu veggspjöldum ráðstefnunar og af því tilefni var María beðin um að flytja stuttan fyrirlestur um niðurstöður rannsóknarinnar fyrir ráðstefnugesti.  Að sögn Maríu kom þetta skemmtilega á óvart og tókst fyrirlesturinn vonum framar.

María er efna- og eðlisverkfræðingur (Civ. ing. Kemiteknik med fysik) að mennt og lærði m.a. við Chalmers- tækiháskólann í Svíþjóð.  Rannsóknir hennar á Rf beinast m.a. að söltun, vöruþróun, vinnslueiginleikum, vatnsheldni, próteinum, léttsöltun.

Sjá má frekari lýsingu á ráðstefnunni á slóðinni http://www.biopolymersolutions.co.uk/nmr/ .
Fréttir