• Heimsókn frá Marks og Spencer og Coldwater, 24. maí 2006

Markaðs- og tæknimenn frá Marks Spencer og Coldwater í kynningu í Sjávarútvegshúsinu

24.5.2006

Í vikunni voru fjórir starfsmenn fyrirtækjanna Marks & Spencer og Coldwater í Bretlandi á ferð hér á landi til að kynna sér sjávarútveg, fiskvinnslu, fyrirtæki og rannsóknir er lúta a sjávarafurðum á Íslandi. Fjórmenningarnir voru ánægðir eftir heimsókn í Sjávarútvegshúsið í morgun.

Nokkrir sérfræðingar frá Rf fluttu stutta kynningu á þeim rannsóknum sem hér eru gerðar. Sjöfn Sigurgísladóttir byrjaði á því að bjóða gestina velkomna og sagði þeim síðan frá starfsemi Rf og hvernig unnið væri að því jafnt og þétt að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða. Helga Gunnlaugsdóttir ræddi síðan m.a. um vöktun á óæskilegum efnum í sjávarafurðum og kynnti nýlega skýrslu um það efni sem Rf vann fyrir tilstuðlan sjávarútvegsráðuneytisins. Vakti það töluverða athygli þeirra hversu lítið mælist af óæskilegum efnum í íslenskum fiski, eins og fram kemur í áðurnefndri skýrslu.

Kolbrún Sveinsdóttir, fjallaði því næst um verkefni sem nefnist  Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða.  Ræddi Kolbrún m.a. að kannanir sýni að fiskneysla virðist vera að minnka, sérstaklega á meðal ungs fólks og að þetta væri áhyggjuefni.  Tóku gestirnir undir þetta og höfðu svipaða sögu að segja frá Bretlandi.  Loks greindi Sigurjón Arason frá verkefnum um vinnsluspá og ræddi um nauðsyn rekjanleika.

Loks má geta að fulltrúar frá sjávarútvegsráðuneytinu útskýrðu hvernig fiskveiðistjónarkerfið virkar hér á landi og einnig bar fleiri atriði á góma s.s. eco-labelling, en að sögn gestanna spyrja neytendur í Bretlandi margvíslegra spurninga um uppruna og bakgrunn þeirra matvæla sem þar eru í boði og því nauðsynlegt fyrir söluaðila að hafa haldbærar upplýsingar á reiðum höndum.  Það hefði enda verið tilgangur ferðar þeirra hingað til lands, að afla sér gagna.

Þeir sem heimsótti Sjávarútvegshúsið í morgun voru Andrew Mallison tæknistjóri M&S, Andrew Richy tæknimaður NPD M&S,  Cris Barker tæknistjóri Coldwater í Grimsby og Andy Beeken Sölufulltrúi M&S hjá Coldwater.
Fréttir