• Kvarnir fjarlægðar í rannsóknarskyni

Ráðið í ástand lífríkis með því að skoða eyrun á þorski

10.5.2006

Við rannsóknir á fiskum geta vísindamenn nýtt sér kvarnir til að aldurs- og tegundagreina hann. Í öllum beinfiskum eru steinar úr kalkefnasamböndum í innra eyra þeirra sem kallast kvarnir. Þær gegna margvíslegu hlutverki, þ.á.m. er heyrnar- og jafnvægisskyn fisksins í sjónum, en hægt er að ráða ýmislegt fleira með því að skoða þær. Í vikunni var verið að fjarlægja kvarnir smáþorsks á Rf, m.a. til að athuga ástand lífríkissins í hafinu umhverfis Ísland.  

Þessi “eyrnaskoðun” er hluti af AMSUM-vöktunarverkefninu, sem Rf hefur tekið þátt í síðan 1989, en markmið þess er að vakta breytingar sem kunna að verða á styrk snefilefna í lífríki sjávar umhverfis Ísland á ákveðnu tímabili og á milli ólíkra haf- og strandsvæða. Hlutverk Rf í verkefninu er umsjón með mælingum á ýmsum ólífrænum snefilefnum og klórlífrænum efnum í sandkola, þorski og kræklingi sem safnað er umhverfis landið. Rf sér einnig um að koma gögnum í gagnabanka Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES).

Í vikunni voru starfsmenn frá umhverfis- og gæðasviði Rannsóknarsviðs Rf að undirbúa smáþorsk fyrir rannsóknir í vinnslusal Sjávarútvegshússins með því að flaka hann og fjarlægja kvarnir.

Verkefnisstjóri á Rf:  Eva Yngvadóttir
Fréttir