• Námskeið fyrir Icelandic Group á Rf

Markaðsfólk á námskeiði hjá Rf

1.12.2005

Símenntun er af hinu góða og í gær sótti 14 manna hópur sérfræðinga frá Icelandic Group námskeið á Rf til að rifja upp ýmis almenn atriði varðandi gæðamat, meðferð og geymslu á fiski. Fólkið kom frá hinum ýmsu deildum Icelandic samstæðunnar.

Aukin áhersla á viðskipti með ferskan fisk gerir það að verkum að þeir sem sjá um innkaup og sölu á sjávarafurðum verða að vera vel að sér um flest það sem lýtur að gæðamálum, s.s. gæði og geymsluþol, meðferð á ferskum fiski, skynmat, skemmdarferla, örverur, og fleiri þætti, sem skipta máli varðandi gæði sjávarafurða.

Þetta eru þau atriði sem sérfræðingar Rf rifjuðu upp með markaðsfólki Icelandic á námskeiðinu, sem haldið var í Sjávarútvegshúsinu, Skúlagötu 4, í gær.  Námskeiðið var bæði í formi fyrirlestra og umræðna, en einnig var verkleg þjálfun í skynmati á ferskum fiski.

Á myndinni sést Emilía Martinsdóttir, deildarstjóri á Rf (fyrir miðju), leiðbeina hluta hópsins í skynmati.  Emilía er deildarstjóri Neytenda og öryggishóps á Rannsóknarsviði Rf og sérfræðingur  í skynmati. 
Fréttir