• Lúðulirfur

Lífvirk efni á fyrstu stigum lúðueldis

29.9.2005

Nýlega lauk þriggja mánaða forkönnun á “Notkun lífvirkra efna í lúðueldi”. Verkefnið var styrkt af Rf, HA, Fiskey ehf., Primex og Nýsköpunarsjóði námsmanna og unnið í sumarvinnu af Rut Hermannsdóttur, nemanda við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri.

Í verkefninu voru rannsökuð hamlandi áhrif valinna lífvirkra efna á vöxt bakteríustofna sem einangraðir voru úr fóðurdýrum lúðulirfa (Artemia). Lífvirku efnin voru tvær mismunandi gerðir af kítósan, kolmunnapeptíð, þorskpeptíð (frostþurrkuð peptíð svo og þorskpeptíð í lausn) og þorskaugu. Þorskpeptíðin sem notuð voru í tilrauninni voru unnin úr þorskflökum þar sem vöðvaprotein voru klippt niður með ensýmum og peptíðafurðinni safnað með því að fella smærri peptíð í lausninni.

Kolmunnapeptíð og kítósan reyndust ekki hafa áhrif á vöxt þeirra bakteríustofna sem rannsakaðir voru og við þessar tilteknu aðstæður (in vitro rannsóknir) en niðurstöður sýndu að þorskpeptíð og einsleit blanda unnin úr þorskaugum höfðu hamlandi áhrif á vöxt flestra þeirra stofna sem rannsakaðir voru og lofa þessar niðurstöður því góðu um áframhaldandi rannsóknir.

Öflugri bakteríuhamlandi virkni fékkst með þorskpeptíðum fyrir frostþurrkun samanborið við frostþurkuð, uppleyst peptíð. Efnin höfðu ennfremur meiri áhrif á bakteríustofna sem einangraðir voru úr meðhöndluðum fóðurdýrum samanborið við ómeðhöndluðum og benda niðurstöður jafnframt til að aðferð við meðhöndlun fóðurdýra hafi áhrif á næmi þeirra stofna sem einangraðir eru úr fóðurdýrunum eftir meðhöndlun.

Blanda úr þorskaugum hafði marktæk áhrif á vöxt þeirra bakteríustofna sem rannsakaðir voru og líkur á öflugri virkni fáist við að vinna hráefnið meira en gert var (þorskaugu hökkuð í heilu lagi). Niðurstöður hér gefa einnig til kynna að aðferð við meðhöndlun fóðurdýra hafi áhrif á næmi þeirra stofna sem einangraðir eru úr fóðurdýrunum eftir meðhöndlun.

Niðurstöðurnar mynda grunn að verkefninu “Lífvirk efni í lúðueldi” sem fyrr á árinu hlaut styrk úr Líftæknineti í auðlindanýtingu og þegar er hafið í samstarfi sömu þátttakenda
Fréttir