• Kolmunni til manneldis

Erindi á morgun: Að gera sér (meiri) mat úr uppsjávarfiski

25.5.2005

Fimmtudaginn 26. maí mun Bjarki Magnússon, forstöðumaður þróunarsviðs Sæplasts hf. á Dalvík flytja erindi sem hann nefnir Geymslutækni uppsjávarfisks. Bjarki vann m.a. að meistarverkefni sínu um þetta efni við Háskóla Íslands og vann að því í samvinnu við Rf og nokkur fyrirtæki.

Árið 2003 var heildarafli Íslendinga um 2 milljón tonn og aflaverðmætið nam um 67 milljörðum íslenskra króna og útflutningsverðmætið um 114 milljörðum.  Af þessum 2 milljónum tonna voru uppsjávarfiskar, s.s. loðna, síld og kolmunni rúmlega 70% af heildaraflanum en verðmæti þessara 70% nam einungis um 14% af heildarútflutningstekjunum. 

Forsenda þess að hægt sé að auka verðmæti uppsjávarfisktegunda er að bæta kæli- og geymslutækni.  Þetta á e.t.v. sérstaklega við um kolmunna, en sú fisktegund er yfirleitt veidd utan íslenskrar fiskveiðilögsögu, sem þýðir langa siglingu á miðin og háan eldsneytiskostnað.  Kolmunni er af þorskfiskaætt og er prýðilegur matfiskur, eins og kom í ljós í tilraunum sem Rf gerði fyrir nokkrum árum, í samvinnu við íslenska matreiðslumeistara.

Þetta athyglisverða efni verður inntak erindis Bjarka í erindinu sem haldið verður í fundarsal á 1. hæð Sjávarútvegshússins, Skúlagötu 4 í Reykjavík.  Erindið hefst kl. 9:30 og stendur til kl. 10.  Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Fréttir