• Beitt með nýju beitunni

Rannsóknir á beitu lofa góðu

12.5.2005

Nýlokið er vinnu í verkefninu Aðdráttarafl beitu, en markmið þess var að finna leiðir til að auka útstreymi niðurbrotsefna frá beitu sem notuð er til línuveiða, í þeim tilgangi að laða fisk enn frekar að beitunni. Niðurstöður þóttu lofa það góðu að ákveðið hefur verið að halda rannsóknum á þessu sviði áfram í nýju verkefni.  

Beita þarf að sjálfsögðu að innihalda efni sem laða fiskinn að henni og hafa fyrri rannsóknir einkum beinst að því að skoða áhrif amínósýra í þessu sambandi, en nú er ljóst að ýmis önnur efni hafa einnig áhrif á virkni beitunnar. Í verkefninu Aðdráttarafl beitu var sérstaklega rannsökuð samsetning lyktarefna sem mynduð eru úr fjölómettuðum fitusýrum og gefa frá sér ferska fiskilykt. Þessar niðurstöður ásamt kortlagningu á innihaldsefnum helstu beituhráefna eru nú tiltækar í gagnagrunni sem nýtist til að ákvarða samsetningu á hráefnum í pokabeitu. Settar hafa verið fram tillögur að samsettum pokabeitum sem innihalda hráefni sem ætti að gefa sambærilegt eða meira útstreymi en hefðbundin beita.

Það var Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís), sem styrkti verkefnið og var lokaskýrslu skilað þangað nýlega. Skýrslan, sem ber heitið Aðdráttarafl beitu - banvænn biti og ber skýrslunúmerið 04-05 verður lokuð í eitt ár, en hér má lesa ágrip hennar.

Í nýju verkefni sem nefnist Feitt er agnið verður rannsóknum á þróun og framleiðslu á tilbúinni beitu haldið áfram. Verður m.a. rannsakað hvort með vali á beitusamsetningu og stærð beitu sé hugsanlega hægt að hafa áhrif á eða velja hvaða fisktegundir og/eða fiskstærðir veiðast hverju sinni.
Fréttir