Miðbiksmat í doktorsverkefni um bætta meðhöndlun bolfisks

10.5.2019

Matís aðstoðar viðskiptavini sína við að auka verðmætasköpun, matvælaöryggi og lýðheilsu. Liður í því starfi er rannsókn um áhrif nýsköpunar um borð í ferskfisktogurum á gæði og geymsluþol bolfisks sem er doktorsverkefni Sæmundar Elíassonar í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands. Verkefni Sæmundar er dæmi um hvernig hagnýtar rannsóknir, öflun vísindalegrar þekkingar og framþróun atvinnulífsins spilar saman. Verkefni Sæmundar er liður í þeim rannsóknum innan virðiskeðju bolfisks sem hafa stutt við viðleitni hagaðila í íslenskum sjávarútvegi við að hámarka arðsemi afurða sinna með áherslu á framleiðslu ferskra afurða frekar en frosinna. Tækniþróun um borð í skipum hefur að nokkru leyti setið á hakanum í samanburði við landvinnslu og þróun flutningaferla.

Þörf fyrir endurnýjun og þróun nýrra lausna á millidekkjum þeirra leiddi til þessa verkefnis. Markmiðin eru að skilgreina bestu aðferðafræði við meðhöndlun fersks bolfisks gegnum vinnslu um borð og að leggja mat á virkni nýrra lausna í togurum. Í því felst að greina áhrif mismunandi aðferðafræði við meðhöndlun, blæðingu og kælingu fisks við vinnslu um borð á gæði og geymsluþol afurða. Enn eitt markmið verkefnisins er að niðurstöður þess nýtist sem hönnunarforsendur fyrir framleiðendur tæknilausna sem taka mið af því að skila sem bestu hráefni í land til áframvinnslu.

Niðurstöður verkefnisins sýna að biðtími í móttöku hefur afgerandi áhrif á lit ferskra flaka. Einnig skilar verklag þar sem blóðgun og slæging er framkvæmd í tveimur aðgerðum betri lit, samanborið við hefðbundna blóðgun og slægingu í einu handtaki. Niðurstöður blæðingartilrauna sýna hvaða tími og hitastig gefa ljósan flakalit og einnig benda þær til að hringrásun blæðingarvökva hafi meiri áhrif á virka blóðtæmingu fisks en endurnýjun á sjó. Mat á nýjum vinnsluferlum sýnir fram á árangur í einsleitni afurða samanborið við eldri kerfi.

Áhrif ofurkælingar á heilum slægðum fiski um borð skilaði hægari skemmdarferlum en ofurkæld geymsla á flökum eftir vinnslu hafði mest áhrif á geymsluþol. Hermun á órofinni ofurkældri virðiskeðju frá veiðum á markað gefur til kynna að ferskleiki og geymsluþol bolfisks geti aukist um allt að fjóra daga, samanborið við hefðbundna ískælingu á heilum fiski og geymslu flaka við 1 °C.

Sæmundur mun fara í gegnum miðbiksmat doktorsnámsins mánudaginn 13. maí kl. 14:00 í VR-II stofu 157, í Háskóla Íslands. Í doktorsnefnd sitja Dr. Ólafur Pétur Pálsson prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarverkfræðideild Háskóla Íslands, Sigurjón Arason prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur Matís auk dr. Björns Margeirssonar lektors við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarverkfræðideild Háskóla Íslands og rannsóknastjóra Sæplasts.

Áður hefur Matís komið að verkefnum 21 doktors sem útskrifast hafa frá Háskóla Íslands með formlegum hætti auk íslenskra doktora sem útskrifast hafa frá háskólanum í Lundi, háskólanum í Aberdeen og Norska vísinda og tækniskólanum. Þannig beitir Matís sér fyrir því í samstarfi við menntastofnanir og fyrirtæki landsins að hagnýt þekking nýtist til að auka verðmætasköpun, matvælaöryggi og lýðheilsu.

Ljósmynd af fiski:  Ljósmyndari Kristinn Ingvarsson, HÍ

Screenshot-2019-05-08-at-14.32.48

 

 

 

 

 

 

 


Fréttir


Tengiliður