• Taeknidagur2016

Matís með opið hús á Neskaupstað

20.10.2016

Það var mikið líf og fjör á starfstöð Matís í Neskaupstað laugardaginn 15.október. Tæknidagur fjölskyldunnar sem haldinn er af Verkmenntaskóla Austurlands var haldinn hátíðlegur, og í tilefni dagsins var Matís með opið hús þar sem starfsemin var kynnt fyrir gestum og gangandi.
Boðið var upp á tertu í tilefni þess að Matís verður 10 ára þann 1. janúar næstkomandi.

Gestum var boðið að skoða ýmsar ræktanir á agarskálum t.d. salmonellu, listeríu og myglusvepp auk skála sem sýndu bakteríur sem vaxa á höndum fyrir og eftir handþvott með sápu og sótthreinsunarspritti. Einnig var krökkunum leyft að spreyta sig á að breyta um lit á lausnum ásamt því að útbúa svokallað fílatannkrem. 

Allt heppnaðist þetta mjög vel og krakkarnir voru alsælir með að fá að spreyta sig örlítið á tilraunum.
Um 400 skammtar af köku hurfu ofan í gestina á rúmlega 2 klst, og tæplega 1000 gestir skráðu sig í gestabók tæknidagsins.


Fréttir