• iStock_Faroe_Island

Matís í samstarfi hafríkja

12.10.2017

Á ný yfirstöðnum fundi stórra hafþjóða um bláan vöxt (e. Large Ocean Nations Forum on Blue Growth), þann 3. október s.l. undirrituðu Høgni Hoydal sjávarútvegsráðherra Færeyja og Sveinn Margeirsson forstjóri Matís viljayfirlýsingu um samstarf (e. Letter of Intent). 

Fundurinn var skipulagður sjávarútvegsráðuneyti Færeyja, Norrænuráðherranefndinni og Norður-Atlantshafssamstarfinu NORA. Síðustu tvö ár hefur í auknum mæli verið rætt um hafsvæði sem tilheyra þjóðum og ríkjum þeirra fremur en flatarmál þess svæðis sem upp úr hafinu stendur.

HHogSM

Høgni Hoydal sjávarútvegsráðherra Færeyja og Sveinn Margeirsson forstjóri Matís.

Einu ári áður skilaði nefnd um endurskoðun á fiskveiðistjórnun í Færeyjum skýrslu. Eðli málsins samkvæmt var fjallað umfleira en fiskveiðistjórnun eina og sér og farið er í skýrslunni í margbreytileika sjávarútvegs, markmið og mögulegan ávinning af veiðum, vinnslu, dreifingu og sölu sjávarfangs með hagnýtingu nýsköpunar og rekjanleika.

Í samræmi við tillögu í skýrslunni um að hið opinbera í Færeyjum ásamt færeysku atvinnulífi leggi sig fram um að menntun og rannsóknir í matvælaframleiðslu verði framarlega í forgangsröðun í Færeyjum. Í því sambandi var hreyft við þeirri hugmynd að kanna kosti þess að setja á fót matvælarannsóknaeiningu í Færeyjum með Matís sem fyrirmynd.

Viljayfirlýsingin sem undirrituð var í síðustu viku undirstrikar áform Fiskimálastýrisins í Færeyjum og Matís á Íslandi um að taka saman höndum til að auka verðmæti, matvælaöryggi og lýðheilsu meðal stórra hafþjóða.

Samstarfið verður þróað frekar með samstarfsverkefnum. Áherslu er lögð á að auka verðmætasköpun, byggða á hagnýtingu vísinda- og nýsköpunar, í færeyskum sjávarútvegsfyrirtækjum og efla enn frekar vísindalegt samstarf milli færeyskra, íslenskra og alþjóðlegra rannsókna og iðnaðaraðila. Samstarfið mun styðja við markmið nýlega kynntra áforma um umbætur í Færeyskum sjávarútvegi.


Fréttir