Kynnum kindina | Sigurvegari fyrsta Lambaþonsins

21.11.2018

9.-10. nóvember sl. var hugmyndakeppni, svokallað hakkaþon, um verðmætasköpun í virðiskeðju sauðfjár haldin í fyrsta sinn. Keppnin var kölluð Lambaþon en í Lambaþoni hafa keppendur 24 klukkustundir til þess að setja saman hugmyndir sem þeir fá svo þrjár mínútur til þess að kynna fyrir dómnefnd að loknum þessum 24 klukkustundum. 

Alls skráðu sig 27 einstaklingar til leiks, einhverjir helltust úr lestinni en svo varð úr að fimm öflug lið kynntu hugmyndir sínar fyrir dómnefnd. Þess má einnig geta að fjöldinn allur af hugmyndum barst í tölvupósti á lambathon@matis.is og vonum við að þeir hugmyndasmiðir sjái sér fært að mæta á næsta ári. 

Að þessu sinni starfaði dómnefndin samkvæmt eftirfarandi gildum: 

 • Hversu mikið eykst verðmætasköpun bónda sem hrindir hugmyndinni í framkvæmd? Hversu mikið ávinnst fyrir neytendur? 

 • Felur hugmyndin í sér uppbyggjandi tillögur um starfsumhverfi bænda? 

 • Felur hugmyndin í sé jákvæð umhverfisáhrif? 

 • Felur hugmyndin í sér þróun nýrra vara eða þjónustu? Hugmyndir um markaðssetningu! 

 • Slær hjarta liðsins með hugmyndinni? Efnafræðin, orkan og framsetningin! 

Dómnefnd skipuðu Guðjón Þorkelsson, sem var formaður hennar, Arnar Bjarnason, Bryndís Geirsdóttir, Gunnfríður Hreiðarsdóttir og Ragnheiður Héðinsdóttir.

Að Lambaþoni stóðu Matís, Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Bifröst, Landgræðslan, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Matvælastofnun, Landssamtök sauðfjárbænda, Samtök ungra bænda, Háskóli Íslands og Icelandic Lamb. 

Kynnum kindina

Hugmyndin sem sigraði fyrsta Lambaþonið var „kynnum kindina“ Meðlimir hópsins voru Arnþór Ævarsson, Magnea Jónasdóttir og Kári Gunnarsson. 

Aðdragandinn að sigurhugmyndinni var að Arnþór setti upp ljósmyndasýningu með portrett myndum af kindum hjá Magneu í Dalakaffi við Reykjadal í Ölfusi. Magnea og Arnþór eiga reyndar sitt hvora kindina í litlum búfjárstofni, sem var viðfangsefni sýningarinnar, á sveitabæ í Ölfusi þar sem Magnea býr ásamt eiginmanni sínum. Ferðamönnunum þótti sýningin stórkostleg og sumir trúðu því varla að kindurnar væru raunverulegar, sumir höfðu aldrei séð kindur á sínum ferðalögum um Ísland eða hreinlega ekki séð kind á ævinni. 

Ljósmyndasýningin og viðtökurnar gerðu þeim ljóst að þarna gæti verið um miklu stærri hugmynd að ræða á landsvísu þar sem sauðkindin er nýtt sem auðlind sauðfjárbændum til hagsbóta. “Kynnum kindina” gengur út á að kynna kindur sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn og gefa ferðamönnum kost á að fræðast um og upplifa kindina með auðveldum hætti, svo sem með því að fylgjast með eða taka þátt í ýmsum störfum til sveita eða á viðburðum sem tengjast sauðfé. 

Þau útfærðu hugmyndina frekar á meðan á Lambaþoni stóð og gerðu að tillögu að vefkerfi undir vinnuheitinu “Sheepadvisor” sem að einhverju leyti væri hliðstætt vefkerfinu Tripadvisor sem flestir kannast við. Einnig kom fram sú hugmynd að mögulegt væri að tengja þetta við vefkerfið www.matarlandslagid.is. Matarlandslagið er gagnagrunnur sem Matís hefur þróað og getur boðið upp á ótal möguleika en er ekki full mótaður enn þá. Bændur gætu tengt sig við dreifnikort matarlandslagsins og sjálfir sett inn upplýsingar um vörur og/eða þjónustu. Í hugmyndinni að vefkerfinu Sheepadvisor gætu ferðamenn fengið yfirlit á landsvísu og bókað sauðfjártengda ferðaþjónustu, gistingu og fleira ásamt viðburðum sem eru á döfinni. Dæmi um það gætu verið útsýnisferðir eða gönguferðir á afréttum og að upplifa sauðburð, rúning, smölun, og að sjálfsögðu réttir. Bændur gætu tengt þetta frekar við annað sem þeir gætu haft á boðstólum, s.s. veitingar, gistingu eða sölu á ullarvörum, kjötvörum, handverki eða öðru. Bent var einnig á hliðstæður hjá sauðfjárbændum á Nýja Sjálandi. Á þennan hátt gætu þeir sauðfjárbændur sem hafa áhuga á ferðaþjónustu ráðið sínum vinnutíma í ferðaþjónustunni og sjálfir ákveðið hvað er boðið upp á og hvenær eftir því sem hentar á hverjum bæ fyrir sig. Vefkerfið gæti líka boðið upp á umbununakerfi með möguleikum fyrir umsagnir og einkunnargjöf í stíl við Tripadvisor. 

Magnea Jónasdóttir og Arnþór Ævarsson. Ámyndina vantar þriðja meðlim sigurliðsins, Kára Gunnarsson.

Kindin er svo miklu meira en bara kjöt og lopapeysur, hún er stór þáttur í menningu okkar og gangvart erlendum ferðamönnum eru dæmi um að kynni af kindinni hafi verið hápunktur Íslandsferðarinnar. Kindin jafnast því á við náttúruperlur landsins og er auðlind sem á að nýta og gera að vörumerki Íslands á alþjóðavísu. Sigurlið Lambaþons er þess fullvisst að fræðsla og aukin upplifun ferðamanna á íslensku sauðkindinni muni auka eftirspurn eftir öllum vörum og þjónustu tengdri íslensku sauðkindinni, bæta hag sauðfjárbænda og auka verðmæti í allri virðiskeðju sauðfjár.

Fjárborg í fjárhúsum

Árið 2007 stofnaði Hlédís Sveinsdóttir verkefnið kindur.is þar sem neytendum stóð til boða að kaupa sér eignar- eða fósturkind. Lagaumhverfið hefur breyst síðan þá og þess vegna eru núna að opnast dyr fyrir bændur til þess að auka enn frekar verðmætasköpun. Hugmyndin gengur út á að hver sem er geti keypt sér kind, haft hana í fóstri hjá bónda og orðið þar með „fjarbóndi“. Viðkomandi á kindina samkvæmt lögum en greiðir bóndanum gjald fyrir uppihaldi á kindinni mánaðarlega.

Bændur í Fjárborg geta boðið upp á hina ýmsu þjónustu fyrir eigendur kindanna líkt og kjötsúpudag, ættfræðiupplýsingar, myndir af kindinni reglulega, opinn dag í sauðburði, sútun á gæru, sláturgerð og margt fleira.

Fjárborg í fjárhúsum var hugmynd sem Hlédís Sveinsdóttir, Sólveig Bjarnar Reynisdóttir og Elín Guðnadóttir unnu með.

Verðlaunaféð – stýrð beit í skógi er allra hagur

Skógarlambið skjólsins nýtur 

af skógi sem að vex í dag 

Grasið sem og birkið bítur 

búskapur í allra hag  

Verkefnahugmynd um fé sem nýtir beit í skógarbotni er getur verið næringarríkara og meira af á flatareiningu en í úthögum. Skógur, kominn yfir fyrstu uppvaxtarárin, nýtir örveruflóru (og hugsanlega einhverja næringu líka) sem fellur til í formi lífræns úrgangs (lambaspörð) og fé heldur niðri samkeppnisgróðri.  Létt beitarálag getur styrkt rótakerfi botngróðurs og jarðvegsrof er hverfandi (Á ekki við um ofbeit). Fé nýtur góðs af tuggu botngróðurs, fallþungi lamba er meiri, sem gefur auka pening í sölu. Sé skógurinn uppkvistaður (sem er nánast skilyrði) þá er umgengni um skóginn til fyrirmyndar og fallegur til útivistar. Féð sækir í skóg, það vita allir. Ef það fengi að ganga í skógi þá er smölun á fjalli er óþörf. Fé sem bætir landgæði ætti að heilla kaupandann. Lengri sláturtíð þýðir nýslátrun yfir lengri tíma. Skógur bindur kolefni og og breytir rýru landi í ríkt. Grunnvatn hreinsast og jafnara rennsli er á því yfir árið, minni hætta á hamförum.  Vel hirtir skógar er aðdráttarafl fyrir mannfólk, ekki síður en sauðfé. 

Hlynur Gauti Sigurðsson, Sæmundur Kr. Þorvaldsson, Sighvatur Jón Þórarinsson og Guðríður Baldvinsdóttir unnu að hugmyndinni.

Græna lambið

Græna lambið er vottun sem er tekin út af viðurkenndum eftirlitsaðilum.  

Vottunin tryggir: 

 • Heilnæma og holla vöru. 

 • Sjálfbærni á búunum sem dýrin eru alin upp. 

 • Góða velferð á skepnunum. 

 • Kolefnishlutlaust lambakjöt. 

 • Niðurbrjótanlegar umbúðir. 

 • Lágmarks sýklalyfjanotkun. 

 • Byggir á hugmyndinni um fyrirmyndar kúabú 

Vottunin er ekki eingöngu hugsuð fyrir fé heldur einnig allar þær vörur sem mæta stöðlum Græna lambsins mega fá stimpilinn, þrátt fyrir að framleiða ekki lambakjöt. T.d grænmeti á borð við tómata, gúrkur, papriku, gulrætur og kartöflur. Svínabú (t.d þau bú sem framleiða eigin fóður). Hænsnabú sem nota íslenskt hráefni til fóðrunar. Hestabú ætluð til undaneldis (t.d. blóðmerabæir).  

Að Græna lambinu stóðu þau Sóley Erna Sigurgeirsdóttir, Steinþór Logi Arnarsson, Sunna Þórarinsdóttir og Ísak Jökulsson. 

Woolpa

Verkefnið framtíðarsýn fyrir Íslensku sauðkindina fólst meðal annars í því að hvetja til nýjunga í faginu og þverfaglegs samstarfs bænda og hönnuða. Þegar úr ullinni er gefin aukin virðing verður úr henni aukið virði. Með því að horfa á möguleika Íslensku ullarinnar og kosti frekar en galla þá eru ótal möguleikar í boði því ullin er harðgerð, hlý, einangrandi, vatnsfráhrindandi og hún andar. Hópur útskrifaðra nemenda úr hönnun frá Listaháskóla Íslands kynnti hugmyndir af fatnaði, fylgihlutum og skóm sem allt var unnið eingöngu úr Íslenskri ull sem var þurrþæfð. 

Að Woolpu stóðu Margrét Arna Vilhjálmsdóttir, Kristín Soffía Þorsteinsdóttir, Bjarmi Fannar Irmuson, Þórður Jörundarson og Ari Jónsson. 

Mynd/picture: Shutterstock | Id. 111107980


Fréttir


Tengiliður