Kynnum kindina | Sigurvegari fyrsta Lambaþonsins
Aðdragandinn að sigurhugmyndinni var að Arnþór setti upp ljósmyndasýningu með portrett myndum af kindum hjá Magneu í Dalakaffi við Reykjadal í Ölfusi. Magnea og Arnþór eiga reyndar sitt hvora kindina í litlum búfjárstofni, sem var viðfangsefni sýningarinnar, á sveitabæ í Ölfusi þar sem Magnea býr ásamt eiginmanni sínum. Ferðamönnunum þótti sýningin stórkostleg og sumir trúðu því varla að kindurnar væru raunverulegar, sumir höfðu aldrei séð kindur á sínum ferðalögum um Ísland eða hreinlega ekki séð kind á ævinni.
Ljósmyndasýningin og viðtökurnar gerðu þeim ljóst að þarna gæti verið um miklu stærri hugmynd að ræða á landsvísu þar sem sauðkindin er nýtt sem auðlind sauðfjárbændum til hagsbóta. “Kynnum kindina” gengur út á að kynna kindur sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn og gefa ferðamönnum kost á að fræðast um og upplifa kindina með auðveldum hætti, svo sem með því að fylgjast með eða taka þátt í ýmsum störfum til sveita eða á viðburðum sem tengjast sauðfé.
Þau útfærðu hugmyndina frekar á meðan á Lambaþoni stóð og gerðu að tillögu að vefkerfi undir vinnuheitinu “Sheepadvisor” sem að einhverju leyti væri hliðstætt vefkerfinu Tripadvisor sem flestir kannast við. Einnig kom fram sú hugmynd að mögulegt væri að tengja þetta við vefkerfið www.matarlandslagid.is. Matarlandslagið er gagnagrunnur sem Matís hefur þróað og getur boðið upp á ótal möguleika en er ekki full mótaður enn þá. Bændur gætu tengt sig við dreifnikort matarlandslagsins og sjálfir sett inn upplýsingar um vörur og/eða þjónustu. Í hugmyndinni að vefkerfinu Sheepadvisor gætu ferðamenn fengið yfirlit á landsvísu og bókað sauðfjártengda ferðaþjónustu, gistingu og fleira ásamt viðburðum sem eru á döfinni. Dæmi um það gætu verið útsýnisferðir eða gönguferðir á afréttum og að upplifa sauðburð, rúning, smölun, og að sjálfsögðu réttir. Bændur gætu tengt þetta frekar við annað sem þeir gætu haft á boðstólum, s.s. veitingar, gistingu eða sölu á ullarvörum, kjötvörum, handverki eða öðru. Bent var einnig á hliðstæður hjá sauðfjárbændum á Nýja Sjálandi. Á þennan hátt gætu þeir sauðfjárbændur sem hafa áhuga á ferðaþjónustu ráðið sínum vinnutíma í ferðaþjónustunni og sjálfir ákveðið hvað er boðið upp á og hvenær eftir því sem hentar á hverjum bæ fyrir sig. Vefkerfið gæti líka boðið upp á umbununakerfi með möguleikum fyrir umsagnir og einkunnargjöf í stíl við Tripadvisor.
Magnea Jónasdóttir og Arnþór Ævarsson. Ámyndina vantar þriðja meðlim sigurliðsins, Kára Gunnarsson.
Kindin er svo miklu meira en bara kjöt og lopapeysur, hún er stór þáttur í menningu okkar og gangvart erlendum ferðamönnum eru dæmi um að kynni af kindinni hafi verið hápunktur Íslandsferðarinnar. Kindin jafnast því á við náttúruperlur landsins og er auðlind sem á að nýta og gera að vörumerki Íslands á alþjóðavísu. Sigurlið Lambaþons er þess fullvisst að fræðsla og aukin upplifun ferðamanna á íslensku sauðkindinni muni auka eftirspurn eftir öllum vörum og þjónustu tengdri íslensku sauðkindinni, bæta hag sauðfjárbænda og auka verðmæti í allri virðiskeðju sauðfjár.