• Fiskeldi | Aquaculture

Hvað segir FAO um áhrif loftslagsbreytinga á sjávarútveg og fiskeldi?

12.7.2018

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) gaf á þriðjudaginn út ítarlega skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á sjávarútveg og fiskeldi. Skýrslan, sem telur fyrir sex hundruð blaðsíður af efni frá yfir tvö hundruð höfundum, hefur að geyma eina umfangsmestu úttekt á málefninu sem birt hefur verið til þessa og leggur sérstaka áherslu á mikilvægi þróunar á aðgerða- og aðlögunaráætlunum og framkvæmd þeirra.

Styrkur koldíoxíðs hefur aukist um 40% frá upphafi iðnbyltingar. Aðal orsakavaldurinn er útblástur frá bruna jarðefnaeldsneytis, eyðing skóga og landbúnaður.  Það er því varla um að villast að þessi gífurlega aukning er af mannavöldum. Höf heimsins hafa bundið um 25-30% af þessu koldíoxíði og hafa auk þess dregið í sig um 93% af þeirri hitastigsaukningu sem orðið hefur frá upphafi iðnbyltingar, sem leitt hefur til hlýnunar sjávar auk hækkunar á yfirborði sjávar um 0.19 m að meðaltali. Þar að auki veldur þessi mikla upptaka hafsins á CO2 aukinni súrnun sjávar, en sýrustig sjávar hefur aukist um að meðaltali 26% frá iðnbyltingu, sem m.a. er talið geta haft skaðleg áhrif á skelmyndandi lífverur. Í kjölfar þessarar þróunar er ljóst að höf heimsins, sem og vötn og vatnakerfi, eru að fara í gegnum miklar breytingar. Nýjustu spár benda til að þessar breytingar muni aukast enn frekar í náinni framtíð sem gæti haft umtalsverð áhrif á getu hafs og ferskvatnskerfa til að standa undir þeim fiskveiðum og fiskeldisframleiðslu sem við treystum á í dag.

Hvaða breytingar eru að eiga sér stað?

Áhrif loftslagsbreytinga á mögulegan heimsafla var metinn undir tveimur mismunandi sviðsmyndum, annars vegar þeirri bjartsýnustu, RCP2.6, og hins vegar þeirri svartsýnustu, RCP8.5. Niðurstöðurnar eru þær að undir báðum þessum sviðsmyndum muni geta hafsins til að standa undir fiskveiðum minnka. Undir RCP2.6 er talið að mögulegur heimafli dragist saman um 2,8 - 5,3% til ársins 2050 (í samanburði við árið 2000) og undir RCP8.5 muni hann dragast saman um 7 - 12,1%. Undir RCP8.5 munu þessar tölur svo hækka áfram í 16.2% - 25,2% til loka 21. aldar. Þessar breytingar munu hafa misjöfn áhrif milli heimshluta og í lögsögum ríka, þar sem sum svæði munu sjá aukningu en önnur samdrátt í afla. Talið er að mesti samdrátturinn muni eiga sér stað í suðrænum ríkjum, sér í lagi í suður Kyrrahafi. Skýrslan vitnar m.a. í rannsókn frá árinu 2010, þar sem niðurstöður sýndu að dreifing heimsafla (þ.e. hlutdeild mismunandi ríkja í heildarafla) muni breytast umtalsvert til ársins 2055. Þar er gert ráð fyrir meðal aukningu sem nemur um 30-70% á hærri breiddargráðum (norður af 50 °N) en samdrátt um 40% í suðrænum ríkjum. En þó svo að spárnar sýni að svæði á hærri breiddargráðum komi líklega til með að sjá aukningu í mögulegum afla (þ.á.m. Noregur, Rússlandi, Grænland og Kanada), er talið að um miðbik aldar muni afli sunnar í Norðaustur Atlantshafi hafa dregist saman um allt að 30%. Spár um aukningu á heildartekjum, tekjum sjómanna og heimila, fiskverð og önnur hagfræðileg gildi fylgja einnig að miklu leiti fyrrnefndum spám um breytingar í afla. Þess skal þó getið að töluverður breytileiki ríkti á milli niðurstaðna þeirra líkana sem beitt var á svæði á hærri breiddargráðum og því óvissan meiri á þeim svæðum.

Þegar litið er sérstaklega til breytinga sem orðið hafa nú þegar í Norður Atlantshafi af völdum loftslagsbreytinga, má meðal annars nefna hækkun á meðal yfirborðshitastigi sjávar um 0,1 til 0,5 °C á áratug. Þessi hlýnun var þó mismikil á milli svæða og örfá svæði, líkt og hafið austur af Grænlandi, kólnaði lítillega á árunum 1982-2010. Hraði þessarar hlýnunar jókst umtalsvert frá upphafi níunda áratugar og áætlað er að hún muni halda áfram að aukast í framtíðinni. Langtíma hækkun á sýrustigi sjávar hefur einnig orðið vart í Norður Atlantshafi, yfir tímabil sem spannar nú marga áratugi. Þetta er sérstaklega áhyggjuefni fyrir norðlægari slóðir, þar sem leysanleiki koldíoxíðs er meiri í köldu vatni. Búist er við að þessi þróun muni halda áfram, en áhrif þessarar súrnunar á skelmyndandi lífverur og ungviði fiska eru þó enn að miklu leiti óljós. Breytingar á útbreiðslu- og farmynstri ýmissa tegunda hefur einnig verið greint, bæði í Norðaustur og Norðvestur Atlantshafi. Slíkar breytingar hafa í sumum tilfellum ollið töluverðu fjaðrafoki er varðar kvótaskiptingu deilistofna á milli strandríkja og flota, vandamál sem kemur að öllum líkindum til að aukast enn frekar í framtíðinni er fleiri tegundir taka að færast á milli lögsagna ríkja og fiskveiðistjórnunarsvæða.

Áhrif á fiskeldi

Megnið af þeim vexti í framleiðslu sjávarfangs sem talinn er þurfa til að mæta aukinni eftirspurn mun aðallega koma frá eldi í sjó og ferskvatni. Það er því gífurlega mikilvægt að skilja áhrif loftslagsbreytinga á iðnaðinn. Loftslagsbreytingar munu líklega hafa bein og óbein áhrif á fiskeldi, bæði í tíma og rúmi, en FAO skýrslan kallar sérstaklega eftir auknum rannsóknum á þessu sviði. Dæmi um möguleg skammtíma áhrif eru samdráttur í framleiðslu og tjón á innviðum vegna ofsaveðurs, sjúkdóma, eitraðra þörunga og sníkjudýra, auk minnkaðrar framleiðni vegna breytinga í eldisumhverfi. Dæmi um langtíma áhrif eru skortur á villtum lirfum (fyrir skelfiskrækt), takmarkað aðgengi að fersku vatni og fóðri, breytt eldisumhverfi, ofauðgun vatns eða annarskonar röskun á mikilvægum umhverfisþáttum.

Eldi í Asíu er talið viðkvæmast fyrir loftslagsbreytingum þegar litið er til ferskvatnseldis, en lönd eins og Víetnam, Bangladesh og Kína eru nefnd þar sérstaklega til sögunnar. Þegar litið er til sjóeldis eru það Noregur og Chíle sem eru talin viðkvæmust fyrir komandi breytingum, þá sérstaklega í ljósi umfangs eldis í þessum löndum og efnahagslegs mikilvægi þess. Þess skal þó getið að Færeyjar voru ekki teknar með inn í þetta mat vegna skorts á gögnum, en líklegt þykir að Færeyjar hefðu komið út á svipuðum stað og Chíle og Noregur í ljósi mikilvægi atvinnugreinarinnar fyrir landið. Tjónnæmi (e. vulnerability) eldis í sjó og ferskvatni er beintengt við stjórnun þess, hvort sem á við um stjórnun á vegum stjórnvalda og/eða eldisfyrirtækjanna sjálfra. Í ljósi þess að fiskeldi getur verið sérstaklega berskjaldað fyrir skammtíma áföllum, t.d. vegna veðurs eða annarra ófyrirséðra umhverfisþátta, þá er mikilvægt að meta bæði skammtíma og langtíma áhrif við gerð viðbragðs- og aðlögunaráætlana við loftslagsbreytingum. 

FAO ályktar að svæðis- og hafskipulag, sem og vistkerfis-miðuð stjórnun geti aukið getu fiskeldis til að takast á við komandi loftslagsbreytingar, en slíkt krefjist aukinnar þekkingar á áhættuþáttum í tíma og rúmi, forgangsröðun þeirra og þróun aðlögunaráætlana í samstarfi við hagaðila sem hægt væri að innleiða í stjórnunarhætti.

Gerð viðbragðs- og aðlögunaráætlana

Geta útgerða, sjómanna og fiskeldisfyrirtækja til að takast á við komandi breytingar mun ákvarðast af hæfni þeirra til að aðlagast breyttum aðstæðum og skammtíma áföllum. Það er því nauðsynlegt að auka skilning okkar á undirstöðuatriðum aðlögunarhæfninnar til þess að vera betur í stakk búin til að takast á við breytingarnar. Þetta er hægt að gera með því að leggjast í þróun viðbragðs- og aðlögunaráætlana. Þar er ekki bara mikilvægt að bera kennsl á helstu áhættur og aðlögunarmöguleika, heldur þarf einnig að hafa sig eftir því að bera kennsl á þau tækifæri sem felast í breytinunum fyrir iðnaðinn, ekki bara í heild sinni, heldur fyrir alla anga hans. Þannig er hægt að aðstoða þá sem helst eru berskjaldaðir fyrir loftslagsbreytingum við að viðhalda þeirra lífsviðurværum. Þetta skiptir sérstaklega miklu máli þegar kemur að þróunarlöndum þar sem smábátaveiðar og fiskeldi á smærri skala er stór þáttur í lífsviðurværi fólks og samfélaga. Hæfni einstaklinga og samfélaga til að aðlagast loftslagsbreytingum byggist á tjónnæmi þeirra gagnvart breytingunum, hversu berskjölduð þau eru gagnvart þeim og hæfni þeirra til að aðlagast þeim. Fátækir einstaklingar og samfélög sem reiða sig á sjávarútveg og fiskeldi eru því viðkvæmustu hóparnir þar sem þeir eru síður færir um að aðlagast breyttum aðstæðum, bæði vegna landfræðilegrar staðsetningar þeirra og efnahagsstöðu.

Matís þátttakandi í ClimeFish verkefninu

ClimeFish er eitt af nokkrum stórum rannsóknarverkefnum undir regnhlíf rannsókna- og nýsköpunaráætlunar Evrópu er tengjast sjávarútvegi sem Matís tekur þátt í, en þetta verkefni skoðar áhrif yfirvofandi loftslagsbreytinga á veiðar og eldi í sjó og ferskvatni í Evrópu, ásamt því að setja upp viðbragðs- og aðlögunaráætlanir. Matís hefur yfirumsjón yfir þeim hluta verkefnisins sem snýr að þróun aðferðafræði til að útbúa slíkar viðbragðs- og aðlögunaráætlanir. Þessi nýútkomna skýrsla FAO er því kærkomin samantekt yfir það sem er að gerast í heiminum í þessum efnum, en þess má geta að einn af sex meginhöfundum skýrslunnar er einnig þátttakandi í ClimeFish verkefninu. Lokaniðurstöður ClimeFish verkefnisins munu liggja fyrir apríl 2020 og munu þær fela í sér spár um áhrif komandi loftslagsbreytinga á veiðar og fiskeldi í 16 tilviksrannsóknum í Evrópu, auk áhættugreininga og aðlögunaráætlana fyrir 7 af þessum 16 tilviksrannsóknum. Loks mun aðferðafræðin sem þróuð var innan verkefnisins einnig nýtast í frekari greiningar.

Frekari upplýsingar má nálgast hjá Ragnhildi Friðriksdóttur hjá Matís og á heimasíðu ClimeFish verkefnisins www.climefish.eu.

Einnig má nálgast skýrslu FAO á heimsíðu þeirra http://www.fao.org/3/I9705EN/i9705en.pdf


Fréttir


Tengiliður