Fjör á fyrsta degi Bændamarkaðar!

13.7.2018

Fyrsti opnunardagur Bændamarkaðar í Pakkhúsinu á Hofsósi var laugardaginn 30. júní sl. Um er að ræða tilraunaverkefni á vegum Matís, í samvinnu við bændur og framleiðendur í Skagafirði og Þjóðminjasafn Íslands, en Pakkhúsið er menningarsögulegt hús frá um 1777 og tilheyrir Húsasafni Þjóðminjasafnsins.

Markaðurinn var afar vel sóttur og mikil stemning allan opnunartímann, en harmonikkuleikari var á staðnum og spilaði íslensk lög.

Tíu skagfirskir bændur og framleiðendur seldu afurðir sínar á markaðnum og var ýmislegt á boðstólnum, þar á meðal lambakjöt, nautakjöt, geitakjöt, grafið og reykt kjöt, siginn fiskur, harðfiskur, hákarl, skagfirskt hunang, hænuegg, andaregg, kornhænuegg, grænmeti, kryddjurtir, sumarblóm, afskornar rósir og handverk. Markaðurinn verður opinn í sumar á auglýstum laugardögum kl. 13-16, með áherslu á afurðir beint frá bændum og framleiðendum í Skagafirði.

Næsti markaður verður haldinn næstkomandi laugardag 14. júlí, kl. 13-16. Vöruframboð verður svipað og áður, en til viðbótar má gera ráð fyrir nýjum afurðum, svo sem ferskum rabarbara, ferskum fiski, skagfirskum smyrslum og fleiru, auk þess sem Veitingastaðurinn Sólvík, gegnt Pakkhúsinu, mun í tilefni markaðarins selja bjór frá siglfirskum nágranna, Segull 67.

Nánari upplýsingar um Bændamarkaðinn Hofsósi og opnunartíma eru aðgengilega á Facebook síðu markaðarins ( Bændamarkaður Hofsósi ) og á Facebook síðu Matís ( MatisIceland )


Fréttir