Blendingshvalur milli steypireyðar og langreyðar erfðagreindur

24.7.2018

Hvalur sem veiddist við Ísland nýlega sem hafði útlitseinkenni bæði steypireyðar og langreyðar kom til greiningar á arfgerð til Matís. Mikil óvissa var um hvort hvalurinn væri steypireyður sem er alfriðuð tegund eða blendingur milli steypireyðar og langreyðar þar sem dýrið hafði útlits- einkenni beggja tegunda. Innlendum og erlendum sérfæðingum kom ekki saman um hvort væri, en veiðar á steypireyð eru algerlega ólöglegar. Því var mikilvægt að skera sem fyrst úr því hvaða tegund dýrið væri.

Sýni úr dýrinu ásamt öðrum sýnum úr langreyðum, steypireyðum og þeim fjórum blendingum langreyðar og steypireyðar sem áður hafa veiðst hér við land komu til Matís til erfðagreiningar. Greiningin byggist annarsvegar á raðgreiningu á hvatberalitningi sem er einstakur fyrir hverja tegund og erfist aðeins frá móður og arfgreiningu á 15 erfðamörkum þar sem notast var við breytileika í tafsröðum (microsatellite).

Erfðagreining Matís leiddi í ljós að hér var um blendingshval að ræða. Hvatberalitnings-greiningin sýndi að móðir blendingsins var steypireyður, en greiningin með 15 erfðamörkum að um blending var að ræða. Sérfræðingar Matís og Hafrannsóknastofnunar greindu gögnin og unnu niðurstöðurnar.

Meira má fræðast um þessa erfðagreiningu og rannsókn á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar.

Tengiliður Davíð Gíslason sérfræðingur, davidg@matis.is.


Fréttir