Athyglisverð grein í Icelandic Agricultural Sciences - fæðuval landsela

20.7.2016

Ný grein var að koma út í hefti 29/2016 af vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences (IAS) og hægt er að nálgast hana á slóðinni http://www.ias.is/landbunadur/wgsamvef.nsf/key2/bsinaawuad.html  

Greinin nefnist „Diet of harbour seals in a salmon estuary in North-West Iceland“ og er eftir höfundana Söndru M. Granquist og Erling Hauksson.

Greinin fjallar um fæðuval landsela í ósum lax- og silungaveiðiáa í Húnaþingi vestra. Hugsanleg áhrif sela á laxfiska er stórt og umdeilt mál og því er þessi rannsókn mjög mikilvægt innlegg í þá umræðu. Höfundar rannsökuðu fæðuval landsela á ósasvæðunum á árunum 2009 til 2011 með kvarna- og beinagreiningu úr selasaursýnum. Megin niðurstaðan var sú að engar vísbendingar voru um laxfiska í saursýnunum selanna. Það voru hinsvegar flatfiskar sem voru mikilvægastir í fæðu selanna í ósunum og næstmikilvægast var síli. Síli var einnig sú fisktegund sem fannst hlutfallslega mest öll árin (45% sýna) og það ásamt flatfiskum og loðnu voru ríkjandi í fjölda einstakra fiska. Breytileiki var þó nokkur á milli ára og einnig var árstíðabundin breytileiki í fæðuvali selanna. Þessar niðurstöður eru mjög áhugaverðar og mikilvægt innlegg í umræðu um meint neikvæð áhrif sela á lax- og silungsveiði hérlendis.

Nánari upplýsingar á vef IAS.


Fréttir