• Sjávarútvegsráðstefnan

3X Technology og Matís tilnefnd til Sviföldunnar 2016

21.11.2016

3X Technology og Matís, í samstarfi við fyrirtæki á Íslandi (Skaginn, FISK Seafood og Iceprotein), í Noregi (Grieg Seafood), Finnlandi (Hätälä) og Danmörku (Norway Seafood), hafa nú í töluverðan tíma unnið að rannsóknum á ofurkælingu og áhrifum hennar á vinnslu og gæði sjávarafurða. 3X og Matís eru í hópi þriggja aðila sem hafa hlotið tilnefningu til Sviföldunnar 2016, Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar, en úrslit verða kunngjörð á Sjávarútvegsráðstefnunni sem haldin verður í þessari viku í Hörpu. 

Sjávarútvegsráðstefna er haldin á hverju ári og er búin að festa sig í sessi sem helsti samskiptavettvangur allra þeirra sem koma að sjávarútvegi á Íslandi. Tilnefningin hverju sinni er mikill heiður en Gunnar Þórðarson, ráðgjafi hjá Matís og stöðvarstjóri fyrirtækisins á Vestfjörðum, hefur borið hitann og þungann innan Matís í kringum þetta rannsóknarverkefni.

Svifaldan 2016 - af vef Sjávarútvegsráðstefnunnar

Ofurkæling

Umsækjendur hafa undanfarið hálft annað ár stundað rannsóknir á ofurkælingu í samstarfi við aðila á Íslandi, Noregi, Finnlandi og Danmörku m.a. með stuðningi Norrænu Nýsköpunarmiðstöðvarinnar Nordic Innovation, sem liður í Nordic Marine Innovation 2.0. Um er að ræða fyrirtæki sem stunda rannsóknir, veiðar, eldi, vinnslu og áframvinnslu fyrir neytandamarkað. Verkefninu mun ljúka um næstu áramót og er það markmið þess að koma öllum niðurstöðum til atvinnugreina í sjávarútvegi og eldisframleiðslu á Norðurlöndum eins fljótt og vel og mögulegt er.

Matis_Gunnar_Thordarson Gunnar Þórðarson, ráðgjafi hjá Matís og stöðvarstjóri fyrirtækisins á Vestfjörðum 

Umtalsverðar rannsóknir hafa verið gerðar um áhrif ofurkælingar á vinnslu og afurðargæði í sjávarútveg og eldisframleiðslu og eru niðurstöður afgerandi. Með ofurkælingu er átt við að færa kæliorku inn í fiskvöðvann strax eftir veiðar/slátrun, þar sem innan við 20% af vatnsinnihaldi er fryst. Í botnfiski er miðað við að kæla niður í -0,7 °C og -1,5 °C í laxi, sem er feitari og því er frystimark hans lægra. Í báðum tilfellum er um fasaskipti að ræða við þessi hitastig og þarf töluverða orku til að fara niður fyrir þau. Miklar rannsóknir hafa verið gerða á ofurkælingu og hefur verið sýnt fram á að engar skemmdir verða á frumum vegna ískristallamyndunar svo framarlega sem kæling er innan skilgreiningar. Mikil tækifæri geta legið í flutningi á ofurkældum ferskum fiski (lax/bolfiskur) þar sem mikið sparast við að losna við ís í flutningskeðju, sérstaklega með flugi. Um 10% af þyngd á hefðbundnum afurðum við flutning er ís og því bæði fjárhagslegur og umhverfislegur ávinningur með aðferðinni. Lækkun á sótspori við framleiðslu og flutning á fiskafurðum er mikilvægt markaðstæki til framtíðar.

Staða hugmyndar: Rannsóknarverkefni

Tengiliðir Gunnar Þórðarson, Matís og Albert Högnason, 3X Technology

Nánar á vef Sjávarútvegsráðstefnunnar


Fréttir