Brúin

Matís tekur alvarlega hlutverk sitt sem brú á milli matvæla- og líftækniiðnaðarins annars vegar og háskólaumhverfisins hins vegar.

Hjá Matís starfa margir af helstu sérfræðingum landsins í matvælatækni og líftækni; matvælafræðingar, efnafræðingar, líffræðingar, verkfræðingar og sjávarútvegsfræðingar. Einnig starfar fjöldi M.Sc. og Ph.D. nemenda við rannsóknartengt nám hjá Matís. Hjá Matís er unnið að fjölbreyttum verkefnum í matvælaiðnaði þar sem áhersla er lögð á nýsköpun og verðmætaaukningu. Verkefnin eru unnin í samvinnu við innlenda matvælaframleiðendur, háskóla og alla þá sem með einhverjum hætti þjónusta matvælaiðnaðinn. Markvisst er unnið að því að auka samvinnu við erlendar rannsóknastofnanir og fyrirtæki í gegnum alþjóðleg rannsókna- og þróunarverkefni.

Brúin

Margt er gert til að tryggja enn betur samstarf og góða samvinnu á milli aðila í þessum mikilvægu greinum. Til að mynda var árið 2012 blásið til sóknar í matvælafræðinámi á Íslandi. Með samstarfi Matís og Háskóla Íslands, í samvinnu við aðra ríkisrekna háskóla, var nýtt alþjóðlegt meistaranám í matvælafræði sett á laggirnar en námið hefur heldur betur slegið í gegn og fjölgar nemendum ár frá ári. Nánari upplýsingar um námið má finna hér: www.framtidarnam.is.

Auk þess var stofnað nýtt svið hjá Matís með það fyrir augum að tengja enn betur saman iðnaðinn og háskólasamfélagið.

„Með stofnun sviðs um menntun og matvælaframleiðslu gerum við starfsemi og hlutverk Matís meira áberandi og tengjum betur saman atvinnulífið, menntun, rannsóknir og þróun á matvælum,“ segir Guðjón Þorkelsson um hið nýja svið menntunar og matvælaframleiðslu sem tók til starfa innan Matís þann 1. júní 2012.