• Örugg matvæli | Food safety

Örugg matvæli

Verkefnið er samstarfsverkefni þýskra og íslenskra stjórnvalda. Megintilgangur verkefnisins er að auka matvælaöryggi og neytendavernd á Íslandi með því að auka vöktun á óæskilegum efnum í matvælum.

Verkefnastjóri

Verkefnið gerir íslenskum yfirvöldum, Matvælastofnun og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna betur kleift að framfylgja löggjöf um matvælaöryggi og neytendavernd, sem hefur nú þegar verið innleidd í gegnum EES-samninginn. Verkefnið felur í sér kaup og uppsetningu á rannsóknatækjum og þjálfun í faggiltum efnagreiningum og eftirlitsstörfum. Með bættum tækjabúnaði verður hægt að framkvæma mun fleiri mælingar innanlands en nú er s.s. mælingar á þörungaeitri í skelfiski og mælingu 300 varnarefna í matvælum í stað þeirra 60 sem nú eru mæld.Verkefnið var upphaflega hluti af IPA-áætlun vegna aðildarviðræðna Íslands við ESB en hefur nú verið hrint í framkvæmd í formi tvíhliða verkefnis milli þýskra og íslenskra stjórnvalda.

Helstu aðgerðir verkefnisins:

 • Starfsfólk Matís fær þjálfun í framkvæmd á efnagreiningum samkvæmt viðurkenndum aðferðalýsingum
 • Starfsfólk MAST og HES fær þjálfun í verklagi við að framfylgja opinberu matvælaeftirliti
 • Skrá aðferðalýsingar á nýjum greiningaraðferðum og verklagsreglum í gæðahandbækur Matís og MAST
 • Undirbúningur fyrir faggildingu á nýjum greiningaraðferðum hjá Matís
 • Vitundarvakning meðal hagsmunaaðila og aukið matvælaöryggi með aukinni vöktun á aðskotaefnum og eiturefnum í matvælum.

Helsti afrakstur verkefnisins:

 • Matís fær betri rannsóknaraðstöðu og getu til að framkvæma efnagreiningar á algengustu hættum í matvælum
 • MAST og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga auka þekkingu á löggjöf, verklagi við opinbert matvælaeftirlit og stjórnsýslu
 • Nýjar mæliaðferðir og verkferlar við lögbært matvælaeftirlit
 • Matís lýkur undirbúningsvinnu fyrir faggildingu á nýjum greiningaraðferðum
 • Vitundarvakning um matvælaöryggi og neytendavernd meðal hagsmunaaðila

Samstarfsaðilar

 • Matvælastofnun
 • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
 • Federal Ministry of Food and Agriculture (BMEL)
 • Federal Institute for Risk Assessment (BfR)
 • Lower Saxony State Office for Consumer Protection and Food Safety (LAVES) í Þýskalandi.

Til baka í öll verkefni