Vöruþróun og markaðir

Eitt af hlutverkum Matís er að styrkja samkeppnishæfni íslenskra matvælaframleiðenda og söluaðila á erlendum mörkuðum og auka hlutdeild þeirra á neytendamarkaði og stuðla þannig að auknum útflutningstekjum.

Þetta verður gert með því að þróa markaðshæfar virðisaukandi (value added) matvörur úr innlendum hráefnum, afla vísindalegrar þekkingar um sérstöðu afurða og miðla henni til framleiðanda, söluaðila og eftir þörfum væntanlegra kaupenda. Við þróunina er horft til þarfa lokamarkaðar og endanlegra kaupenda ásamt því að mæta viðmiðum matvælalöggjafarinnar og þess gætt að vörur verði samkeppnisfærar á markaði, hvað verð og gæði varðar. Virðiskeðja matvæla á markaði til hráefna er metin, tækifæri til verðmætasköpunar dregin fram ásamt hindrunum og ógnunum. Til að mæta kröfum endanlegs markaðar verður leitast við að bæta gæði frumframleiðslunnar og hvernig staðið er að meðhöndlun fisks, þar með talið úr eldi, við slátrun og veiðar.  

Mikilvægt er að byggja upp traust sambönd við innlenda framleiðendur og söluaðila. Hægt er að vinna frumgerðir (sýnishorn fyrir kaupendur) að ýmsum vörum hjá Matís í tilraunaeldhúsi og matarsmiðjum. Fyllsta trúnaðar er gætt gagnvart viðskiptavinum Matís varðandi einstaka afurðir og verkefni.