Lífvirk efni

Hjá Matís er unnið að rannsóknum og þróun á lífvirkum efnum og matvælum, rannsóknum á nýtingu vannýttra afurða, t.d. þörunga og loðnu, heilnæmi matvæla, stöðugleika matvæla og rannsóknum á ensímum úr íslenskri náttúru. Nýting á vannýttum sykruhráefnum í umhverfinu s.s. úr þangi, brjóski, kítíni og sellulósa er skoðuð, sem og klónun og framleiðsla ensíma fyrir matvælaiðnað. Einnig eru þróaðir framleiðsluferlar í matvæla- og orkulíftækni.

Markmið þessara áherslna Matís og helstu verkefni eru einangrun, framleiðsla, umbreyting og þróun lífvirkra efna og matvæla, mælingar á ýmsum eiginleikum matvæla (t.d. blóðþrýstingslækkandi, andoxandi, krabbameinsvarnandi, ónæmisstýrandi, seðjandi  eiginleikum) með mismunandi rannsóknaraðferðum, þróun aðferða til að nýta vannýttar afurðir og rannsaka eiginleika þeirra.og leit og skilgreining ensíma með aðferðafræði líftækni, ensímfræða og erfðatækni. Einnig mælingar á oxun/þránun í sjávarfangi og leiðir til að auka stöðugleika matvæla gagnvart oxun/þránun með markvissum leiðum. Sömuleiðis mælingar á eiginleikum olíu/fitu í matvælum.