Lífefni

Hjá Matís er unnið að rannsóknum og þróun tengdri ýmsum lífefnum í matvælum. Sérstök áhersla er lögð á að finna, einangra og skilgreina náttúruleg lífvirk efni sem hafa heilsubætandi áhrif og geta aukið stöðugleika matvæla. Unnið er að því að koma þessum afurðum á markað. Þessi vinna fer fram í nánu samstarfi við iðnaðinn ásamt stofnunum og háskólum innanlands sem utan. Liður í starfi faghópsins er ennfremur að bjóða sérhæfðar þjónustumælingar.

Í próteinrannsóknum Matís eru ensím notuð til niðurbrots þeirra í þeim tilgangi að auka vinnslueiginleika próteinanna og lífvirkni. Dæmi um vinnslueiginleika próteina eru vatnsleysanleiki, vatnsheldni, olíubinding, froðueiginleikar og ýrueiginleikar. Dæmi um lífvirknieiginleika eru blóðþrýstingslækkandi áhrif peptíða.

Mælingar eru einnig liður í lífefnaáherslum hjá Matís, t.d. mælingar á bragði og lykt, sem hvorttveggja eru mikilvægir gæðaþættir í matvælaiðnaði. Matís býður ýmis konar bragð- og lyktarefnarannsóknir sem skipta máli fyrir bragðgæði matvæla, geymslu- og framleiðsluaðferðir. Í þessum mælingum eru notuð tæki á borð við gasgreinamæli, sem er notaður til að kortleggja magn og tegund þeirra efna sem mestu máli skipta í lykt.