Vinnureglur

Matís telur nauðsynlegt að marka skýrar vinnureglur um það hvernig niðurstöður úr sýnatökum eru sendar frá fyrirtækinu. Til að tryggja fullan trúnað við viðskiptavini Matís, þá gilda neðangreindar vinnureglur.

Með sýnunum skal fylgja nafn sendanda og trúnaðarmanna. Trúnaðarmenn einir fá uppgefnar upplýsingar í gegnum síma og sendandi sýnanna fær sendar skriflegar niðurstöður nema að annað sé tekið fram.

Upplýsingar sem þurfa að fylgja sýnum

 • Nafn sendanda
 • Nöfn á öðrum aðilum en sendanda sem eiga að fá niðurstöðurnar
 • Greiðandi
 • Merking sýna
 • Mælingar sem gera skal á sýni
 • Aðrar upplýsingar sem að gagni geta komið vegna mælinganna
 • Trúnaðarmaður

Niðurstöður

 • Niðurstöður mælinga eru eign viðskiptavinar og fullum trúnaði er heitið við viðskiptavininn. Sjá þó sérreglur varðandi lögbundna tilkynningarskyldu hér að neðan.
 • Niðurstöður eru einungis gildar með undirskifuðu mælinganiðurstöðublaði.

Afhending niðurstaðna

 • Niðurstöður mælinga eru sendar með pósti eða faxi, nema um annað sé samið fyrirfram.
 • Trúnaðarmaður getur fengið upplýsingar í gegnum síma. (Skrifleg heimild þarf, sem fyrr segir, að liggja fyrir).

Kvartanir vegna niðurstaðna mælinga

Ef viðskiptavinur gerir athugasemdir við niðurstöður mælinga, er sýnið sem okkur var sent mælt aftur. Ef niðurstaða þeirrar mælingar er sú sama og í fyrra skiptið verður viðskiptavinurinn einnig krafinn borgunar fyrir seinni mælinguna.  Ef niðurstöðum seinni mælingar ber hins vegar ekki saman við þá fyrri er þriðja mælingin gerð og er þá bæði önnur og þriðja mæling viðskiptavininum að kostnaðarlausu.

Ef ógerlegt er að ná samkomulagi við viðskiptavininn er sýnið sent til annarar viðurkenndrar rannsóknastofu á kostnað viðskiptavinarins.

Ef óskað er, getum við aðstoðað við að finna heppilega rannsóknastofu.

Tilkynningarskylda

Viðskiptavinum okkar sem framleiða matvæli er hér með bent á eftirfarandi nýmæli:

Með lögum nr. 169/2000 um breytingu á lögum nr. 93/1995 um matvæli bættist eftirfarandi málsgrein við 24. gr. laga nr. 93/1995:

"Eftirlitsaðilar og þeir sem framleiða matvæli eða dreifa þeim skulu tilkynna til hlutaðeigandi stofnana, sem eru ráðuneytum til ráðgjafar samkvæmt ákvæðum III. kafla laganna, ef gögn sem þessir aðilar hafa undir höndum eða aðrar ástæður benda til hættu á heilsutjóni vegna neyslu matvæla. Sama tilkynningarskylda á við um þá sem starfa við rannsóknir og greiningu á matvælum ef þeir greina í matvælum örverur sem geta valdið sjúkdómum í mönnum sem eru tilkynningarskyldir samkvæmt ákvæðum sóttvarnarlaga, nr. 19/1997, eða reglna settra með stoð í þeim lögum".

Samkvæmt ofanskráðu er Matís skylt að tilkynna forstöðumanni gæðaeftirlits Fiskistofu ef sýklar á borð við Salmonella eða Listeria monocytogenes greinast í matvælasýnum sem send eru Matís til rannsóknar. Áður en slíkt verður tilkynnt mun Matís þó að sjálfsögðu láta viðskiptavini sína vita um stöðu mála.

Tekið skal fram að lög þessi taka ekki til fóðurs.